ESE

Heimsk verða heimaöldu börnin um langa framtið

,,Heimskt er heimaalið barn." Svo hljóðar gamalt máltæki. Því miður virðist það verða hlutskipti Íslendinga, þ.e.a.s. flests venjulegs fólks, að vera bundið í átthagafjötra um ótilgreindan tíma. Hinir sömu geta því gleymt því að velta sér upp úr öðru því sem segir í Hávamálum: ,,Vits er þörf þeim er víða ratar."

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er sú að þessi dauðans alvara rann upp fyrir mér þegar ég brá mér út fyrir landssteinana í heila 11 daga nú upp úr miðjum júnímánuði. Áfangastaðurinn var Suður-Ítalía, sem löngum hefur verið talið meðal fátækari landssvæða í álfunni, hvað þá innan hins göfuga Evrópusambands. Ég nenni ekki að þreyta lesendur með lýsingum á því sem á dagana dreif en ég get þó deilt því með þeim að frekari utanferðir eru ekki á dagskránni hjá mér - sennilega ekki næstu árin. Niðurstaðan eftir ferðina er hins vegar þessi. Það er búið að hneppa Íslendinga í fátækragidru með eða án IceSave og það um langa framtíð. 243 ISK fyrir bensínlítrann er sú staðreynd sem blasir við mörlandanum á Suður-Ítalíu. Það þarf ekki að segja mikið meira.

Nú þegar menn gæla við drauma um inngöngu Evrópusambandið og upptöku evru þá væri hollt fyrir hina sömu að spyrjast fyrir um það á hvaða kjörum evruupptakan verður. Á að miða við núverandi gengi sem er um 180 ISK fyrir evruna og um 210 ISK fyrir pundið? Hvað veit ég? Hitt veit ég að ef sú verður raunin þá er eins gott fyrir alla þá, sem enn ráða yfir garðskika, að fella trén og fara að rækta kartöflur. Það hefur reyndist örsnauðum þjóðfélögum best á sínum tíma. ,,Íslandssnauður" verður e.t.v. besta ræktunarafbrigðið í framtíðinni. Betra en Íslandsrauður og Gullauga.

Það var blessun í útiverunni að heyra ekki fréttir af ástandinu heima. Hins vegar var hressandi, en að sama skapi ekki hughreystandi, að heyra í Einari Má Guðmundssyni rithöfundi, mínum gamla leikfélaga úr Goðheimunum, í Kastljósi í gærkvöldi. EMG var þar að kynna nýja bók sína og hitti einu sinni sem oftar naglann á höfuðið. Á skýran hátt greindi hann þann hlutverkaleik sem íslenskir stjórnmálamenn eru jafnan í, stundum í stjórn og stundum í stjórnarandstöðu. Hvítt er svart og svart er hvítt, allt eftir því hvoru megin borðsins sem menn sitja þá og þá stundina. Virðing mín fyrir íslenskum stjórnmálamönnum hefur fallið meira en gengi íslensku krónunnar og er þá langt til jafnað. Ég tek hins vegar ofan fyrir nýjum þingmanni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem virðist einn örfárra þingmanna átta sig á því að þjóðarhag beri að setja ofar flokkshagsmunum. Hef ekki hugmynd um það hvort áhyggjur hennar séu á rökum reistar en bara það að hún kokgleypi ekki allt það, sem þingflokkurinn sem hún fer fyrir, vill að verði niðurstaðan, er manndómsmerki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband