Færsluflokkur: Bloggar
24.11.2011 | 12:23
Landlausir, íslenskir stangaveiðimenn
Ég hef engar forsendur til að ætla annað en að Nubo gangi gott eitt til og hann sjái viðskiptatækifæri í því sem mörgum finnst aðeins vera örfoka eyðimörk. Ekki má heldur gleyma að hann hefur lýst yfir því að hann afsali sér öllum vatnsréttindum, öðrum en þeim sem hann þarf til þess að starfrækja ferðaþjónustuna, og þeim auðlindum sem kunna að finnast í jörðu innan landareignarinnar. Þrátt fyrir það er eðlilegt að stjórnvöld gefi sér góðan tíma til þess að marka stefnuna í málum sem þessum til framtíðar og svari þeirri spurningu hvort rétt sé að erlendir ríkisborgarar geti í krafti auðmagns keypt upp stóra hluta landsins.
Í þessu sambandi er vert að leiða hugann að öðru en þó ekki óskyldu máli. Á árunum fyrir efnahagshrunið fór fram skipuleg söfnun íslenskra auðmanna á jörðum þar sem laxveiðileyfi voru meðal hlunninda. Þeir stórtækustu sönkuðu að sér tugum jarða í þessu skyni. Erlendir ríkisborgarar létu heldur ekki sitt eftir liggja og frægasta dæmið er sennilega kaup svissnesks auðkýfings á öllum bújörðum og eyðibýlum í Mýrdal og þar með að veiðirétti í Heiðarvatni og Vatnsá sem er gjöful á sjóbirting og lax. Í kjölfar þessara kaupa var Heiðarvatni lokað fyrir íslenskum almenningi og aðgengi að Vatnsá takmarkað verulega. Nú er reyndar farið að selja veiðileyfi í Heiðarvatn á nýjan leik og í Vatnsá geta menn veitt, greiði þeir uppsett verð.
Eftir hrun stóðu stangaveiðifélög og aðrir veiðileyfasalar frammi fyrir því að vera með samninga, sem bundnir voru vísitölu, og kaupendahóp sem segja má að hafi verið hruninn. Á þessu var í flestum tilvikum tekið með samkomulagi leigutaka og landeigenda um frystingu vísitöluhækkana um skeið. Nú virðast vera breyttir tímar og um það vitna nýleg útboð og tilboð í laxveiðiár eins og Laxá á Ásum og Þverá og Kjarará. Í báðum tilvikum er um gríðarlegar hækkanir á leigugjöldum að ræða. Fram hefur komið að verð veiðileyfa fyrir eina stöng í þrjá daga í Laxá á Ásum næsta sumar verði um 1,4 m.kr. sem sagt er vera 75% hækkun milli ára. Hæstu tilboðin í Þverá og Kjarará voru upp á tæpar 112 m.kr. en að teknu tilliti til kostnaðar við netaupptöku í Hvítá og annars kostnaðar, auk þess sem vísitalan fór í gang um leið og tilboðin voru opnuð, má búast við því að leiguupphæðin slagi hátt í 130 m.kr. þegar nýir leigutakar taka við ánni sumarið 2013. Það er því ekki nema von að aðrir veiðiréttareigendur hugsi gott til glóðarinnar næst þegar samið verður um aðrar af betri laxveiðiám landsins. Núverandi leigusamningar um tvær aðrar Borgarfjarðarár, Norðurá og Grímsá, renna út eftir næsta sumar og viðmiðið í nýjum samningum verður sennilega sprengitilboðið í Þverá og Kjarará.Á þetta er minnst hér til að hvetja íslenska stangaveiðimenn til að standa saman um að taka ekki þátt í þeirri helstefnu sem nú virðist eiga að marka. Íslenskir stangaveiðimenn, sem áhuga hafa á laxveiði, eru á góðri leið með að verða landlausir í eigin landi. Þeir hafa ekki efni á að borga 3.000 evrur (um 480 þús. ISK) fyrir stangardaginn á besta tíma og ekki einu sinni 1.000-1.500 evrur fyrir daginn á jaðartímum. Stjórnvöld mættu leiða hugann að þessari þróun, þ.e.a.s. ef þau hafa virkilegar áhyggjur af því að verið sé að takmarka aðgengi Íslendinga að náttúruperlum landsins.
Næstkomandi laugardag verður aðalfundur Stangaveiðifélags Reykjavíkur, öflugasta og stærsta stangaveiðifélags landsins með um 4.000 félagsmenn, haldinn á Grand Hótel Reykjavík. Það er besti vettvangur félagsmanna til að ræða málin og hafa áhrif á stefnumörkunina. Ég hvet félagsmenn til að mæta á aðalfundinn og koma skoðunum sínum á framfæri.Með veiðikveðju.
Eiríkur St. Eiríksson(Greinin hér að ofan birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2011).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2010 | 16:27
Loksins
Kennir fáklæddum konum um jarðskjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2010 | 22:42
Nýlenda eða hvað?
Vorum nálægt samkomulagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2010 | 21:27
Norðmenn með 5 stig?
Ekki átta ég mig á því hvernig Mbl.is getur dæmt Norðmenn úr leik á EM ef satt reynist að liðið sé með 5 stig eins og haldið er fram í fréttinni.
Ef ég man rétt þá fór Noregur með tvö stig upp úr sínum riðli og vann svo sigur í gær. Það jafngildir 4 stigum.
Jensen tryggði Dönum sigur gegn Norðmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2009 | 00:41
Vammlaus fréttamaður að hurðarbaki?
Það er með ólíkindum að hlusta á hægriöfgamanninn Hall Hallsson, fyrrverandi fréttamann, senda blaða- og fréttamönnum tóninn á ÍNN í kvöld. Ekki síst í ljósi þess að með honum sat fyrrverandi fréttastjóri Sjónvarpsins og Stöðvar 2 sem var meðsekur honum í einhverju mesta siðferðisbresti sem íslenskir blaða- og fréttamenn hafa orðið uppvísir að.
Hallur sat á sínum tíma með Ingva Hrafni í þætti á RÚV þar sem Albert Guðmundsson, sem var að kljúfa sig út úr Sjálfstæðisflokknum, og Þorsteini Pálssyni, þáverandi formanni. Það eina, sem téður Hallur hafði til málanna að leggja, var að spyrja hvort ekki væri hægt að sætta málin í sínum flokki þannig að allir yrðu vinur á ný. Þetta var nú hin gagnrýna fréttamennska sem HH stundaði á sínum tíma en síðan varð hann aðallega frægur fyrir að fyrir að vita ekki hvað færi fram á bak við ,,hinar luktu dyr". Engin furða. Þeir, sem eru með flokksstimpil á sér, fá ekkert að vita frá öðrum en sínum eigin mönnum. Ekki var fréttastjórinn betri. Hann er reyndar kurteis við viðmælendur sína á Hrafnaþingi en tekur svo hamskiptum á umræðuvettvangi með undirmálsmönnunum sem hann kýs að kalla ,,Heimastjórnina".
Af hægri öfgamönnum, sem titlaðir eru sem sagnfræðingar á ÍNN, þá þykir mér Jón Kristinn Snæhólm bara fara vaxandi í starfi. Um HH er allt annað að segja. Hann situr í þættinum á ÍNN við hliðina á fulltrúa flokks, sem stýrði hruninu og segir nánast ekki neitt. Ég segi; á bak við þessar dyr býr illt innræti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 00:12
Íslendingar ferðast minna til útlanda en ekki hvað?
Rak augun í þessa fyrirsögn á Mbl.is í kvöld. Ég er ekki hissa. Það er búið að setja venjulega Íslendinga í farbann og fjötra sem ekki hafa tíðkast síðan hreppsómagar voru og hétu. Það liggur við að það borgi að brjóta af sér og eiga Brimarhólmsvist að launum. Íslendingur með íslenskar krónur að fararteski fyrir gjaldeyriskaup sem ferðast um í Noregi þarf að greiða 260 ISK fyrir lítrann. Á Ítalíu er lítraverðið u.þ.b. 245 ISK fyrir lítrann. Hér heima er bensínverðið að sliga flesta bíleigendur og er það þó töluvert lægra.
Einu hef ég tekið eftir og það er fjandskapur stjórnvalda í garð eigenda dísilbíla. Því var haldið fram á sínum tíma að dísilbílar menguðu minna en bensínbílar en sú skoðun var oftúlkuð. Málið er hins vegar það að dísilbílar eyða minna en bensínbílar og því menga þeir minna en bensínbílarnir. Þetta er eins og með hvítu kindurnar og þær svörtu í gátunni góðu. Vegna þessa hafa íslensk stjórnvöld til skamms tíma snúið öllum þessum málum á hvolf, gefið skít í mengun og aðeins hugað að gróðahyggju. Þegar það munaði 20 ISK/ltr. á verði bensínlítra og dísillítra fyrr í sumar, bensínlítranum í hag, þá var alls staðar annars staðar í Evrópu allt annað upp á teninginn. Þar þurfa stjórnvöld virkilega að huga að umhverfismálunum. Hér heima þá hugsa stjórnvöld, hvort sem þau eru til hægri eða vinstri, sennilega ekki um neitt. A.m.k. ekki neitt sem fær staðist aðra skoðun en þá að umhverfisvænt bón þurfi til að fægja ráðherrastólana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2009 | 21:53
Frændur eru frændum verstir og ekki síst innan ESB
Í frétt RÚV í dag var fjallað um það að trúlega væri mesti akkurinn fyrir Evrópusambandið við inngöngu Íslands í það ágæta bandalag að Noregur myndi fylgja í kjölfarið. ESB hefur reyndar sáralítinn áhuga á Íslandi en Noregur er feitur biti sem sambandið hefur lengi langað til að gleypa.
Í framhaldi af þessum fréttum þá rifjaðist upp fyrir mér viðtal sem ég tók fyrir Skip.is við Rögnvald Hannesson, prófessor við viðskiptaháskólann í Björgvin, fyrir um sex árum síðan. Rögnvaldur er prófessor í auðlindahagfræði og þetta sagði hann við mig á sínum tíma (frétt af Skip.is sem ég á allan höfundarrétt af):
Norðmenn yrðu okkar verstu fjendur innan ESB
- segir Rögnvaldur Hannesson prófessor í fiskihagfræði
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Noregi hafa fylgismenn ESB aðildar nú 8% forskot á andstæðinga hennar og margt bendir til þess að sífellt fleiri Norðmenn telji hag sínum betur borgið innan sambandsins en utan þess. Rögnvaldur Hannesson, prófessor í fiskihagfræði við Verslunarháskóla Noregs í Björgvin, segist vera andstæðingur þess að Íslendingar gangi í ESB en hann tekur skýrt fram að gerist Norðmenn aðilar að sambandinu en Íslendingar standi utan þess þá bíði Íslendinga erfiður tími.
Rögnvaldur, sem búið hefur í Noregi í 40 ár og er með norskan ríkisborgararétt, segir í samtali við Skip.is að hann sé fylgismaður þess að Noregur gangi í ESB enda telji hann hagsmunum Norðmanna betur borgið innan sambandsins en utan. Hann segist hafa greitt atkvæði með aðild 1994 og hafi þá m.a. lagt það á sig að leita uppi norska konsúlinn í St. John´s á Nýfundnalandi til þess að geta greitt atkvæði. Öðru máli gengi hins vegar með Íslendinginn Rögnvald Hannesson.
-- Sjávarútvegshagsmunir Íslendinga eru miklu meiri en Norðmanna og reyndar eru þetta engir smámunir sem við erum að tala um. Við eigum ein auðugustu fiskimið í Norður-Atlantshafi og Ísland er ekkert smáríki þegar fiskveiðimál eru annars vegar. Þar erum við stórveldi. Norðmenn ráða t.d. aðeins yfir einum fiskstofni einir og sér en það er ufsinn. Um alla aðra stofna þurfa þeir að semja um stjórnun á við önnur ríki. Ég tel sömuleiðis víst að Spánverjar og aðrar sjávarútvegsþjóðir innan ESB myndu hleypa Íslandi inn í sambandið án þess að fá eitthvað verulegt í staðinn. Spánverjar og aðrir myndu því fá hlutdeild í kvótanum með einum eða öðrum hætti, segir Rögnvaldur en hann segist reyndar ekki sjá því neitt til fyrirstöðu að íslenska ríkið innkalli aflaheimildirnar og selji þær eða leigi og hafi tekjur af.
Það er enginn annars bróðir í leik
Að sögn Rögnvaldar er það sömuleiðis alveg ljóst að ef Norðmenn gangi í ESB en Íslendingar ekki þá myndi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg.
-- Gerist það þá myndi ég í sporum Íslendinga hugsa málið alveg upp á nýtt. Norðmenn yrðu okkar verstu fjendur á sjávarútvegssviðinu hvað varðar markaðsmálin ef þeir væru í sambandinu. Það er enginn annars bróðir í leik og ef Noregur gengi inn þá væri EES samningurinn sömuleiðis að meira eða minna leyti úr gildi fallinn. Þá yrðu Íslendingar að semja upp á nýtt og með Norðmenn hinum megin við borðið væri tryggt að Íslendingar fengju ekki betri samning en þeir hafa nú. Norðmenn eru á nálum um að það verði Íslendingar sem gangi í sambandið á undan og ég minni á að það sem kom hreyfingu á Evrópuumræðuna hér í Noregi í fyrra var skoðanakönnun á Íslandi sem sýndi meirihlutafylgi við ESB aðild. Það varð til þess að setja allt á annan endann hér í Noregi, segir Rögnvaldur en hann segir að öðru leyti væri það mikil blessun fyrir norsku þjóðina ef samningar tækjust við ESB. Norskur landbúnaður myndi leggjast af og það væri til mikilla bóta fyrir landsmenn. Hann bendir líka á að EES ríkin taki nú við lögum og reglugerðum frá Brussel án þess að koma að ákvarðanatökunni.
-- EES þjóðirnar eru úti á gangi þegar verið er að semja um reglugerðir sem þær verða að innleiða. Það hlýtur að vera betra að vera inni í herberginu þegar ákvarðanirnar eru teknar. Það er sömuleiðis misskilningur að smáríki geti ekki haft áhrif innan ESB. Smáríkin geta gengið í bandalag með öðrum stærri ríkjum og stutt þau í málum sem skipta smáríkin engu og fengið þeirra stuðning í staðinn. Þetta er eins og með smáflokkana. Við sjáum hvaða áhrif litlir öfgaflokkar í Ísrael hafa þar í landi. Eins er það með smáríkin innan ESB.
Svo mörg voru þau orð Rögnvalds Hannessonar. Ég held að hann hafi rétt fyrir sér. Ef Ísland gengur í ESB þá mun Noregur fylgja í kjölfarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2009 | 00:39
Heimsk verða heimaöldu börnin um langa framtið
,,Heimskt er heimaalið barn." Svo hljóðar gamalt máltæki. Því miður virðist það verða hlutskipti Íslendinga, þ.e.a.s. flests venjulegs fólks, að vera bundið í átthagafjötra um ótilgreindan tíma. Hinir sömu geta því gleymt því að velta sér upp úr öðru því sem segir í Hávamálum: ,,Vits er þörf þeim er víða ratar."
Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er sú að þessi dauðans alvara rann upp fyrir mér þegar ég brá mér út fyrir landssteinana í heila 11 daga nú upp úr miðjum júnímánuði. Áfangastaðurinn var Suður-Ítalía, sem löngum hefur verið talið meðal fátækari landssvæða í álfunni, hvað þá innan hins göfuga Evrópusambands. Ég nenni ekki að þreyta lesendur með lýsingum á því sem á dagana dreif en ég get þó deilt því með þeim að frekari utanferðir eru ekki á dagskránni hjá mér - sennilega ekki næstu árin. Niðurstaðan eftir ferðina er hins vegar þessi. Það er búið að hneppa Íslendinga í fátækragidru með eða án IceSave og það um langa framtíð. 243 ISK fyrir bensínlítrann er sú staðreynd sem blasir við mörlandanum á Suður-Ítalíu. Það þarf ekki að segja mikið meira.
Nú þegar menn gæla við drauma um inngöngu Evrópusambandið og upptöku evru þá væri hollt fyrir hina sömu að spyrjast fyrir um það á hvaða kjörum evruupptakan verður. Á að miða við núverandi gengi sem er um 180 ISK fyrir evruna og um 210 ISK fyrir pundið? Hvað veit ég? Hitt veit ég að ef sú verður raunin þá er eins gott fyrir alla þá, sem enn ráða yfir garðskika, að fella trén og fara að rækta kartöflur. Það hefur reyndist örsnauðum þjóðfélögum best á sínum tíma. ,,Íslandssnauður" verður e.t.v. besta ræktunarafbrigðið í framtíðinni. Betra en Íslandsrauður og Gullauga.
Það var blessun í útiverunni að heyra ekki fréttir af ástandinu heima. Hins vegar var hressandi, en að sama skapi ekki hughreystandi, að heyra í Einari Má Guðmundssyni rithöfundi, mínum gamla leikfélaga úr Goðheimunum, í Kastljósi í gærkvöldi. EMG var þar að kynna nýja bók sína og hitti einu sinni sem oftar naglann á höfuðið. Á skýran hátt greindi hann þann hlutverkaleik sem íslenskir stjórnmálamenn eru jafnan í, stundum í stjórn og stundum í stjórnarandstöðu. Hvítt er svart og svart er hvítt, allt eftir því hvoru megin borðsins sem menn sitja þá og þá stundina. Virðing mín fyrir íslenskum stjórnmálamönnum hefur fallið meira en gengi íslensku krónunnar og er þá langt til jafnað. Ég tek hins vegar ofan fyrir nýjum þingmanni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem virðist einn örfárra þingmanna átta sig á því að þjóðarhag beri að setja ofar flokkshagsmunum. Hef ekki hugmynd um það hvort áhyggjur hennar séu á rökum reistar en bara það að hún kokgleypi ekki allt það, sem þingflokkurinn sem hún fer fyrir, vill að verði niðurstaðan, er manndómsmerki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 01:33
Það skín í boruna á stuttbuxnastrákunum
Stjórnlagaþing er vafalust ágætt mál en það þarf að undirbúa miklu betur en gert hefur verið. Hins vegar er makalaust að hlýða á málflutning stuttbuxnastráka úr Sjálfstæðisflokknum um kostnaðinn.
Hver er kostnaðurinn af fjárgljæfrastefnu Sjálfstæðisflokksins í stjórn undanfarin ár og áratugi?Gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Samt leyfa stuttbuxnastráknarnir, Birgir og Sigurður Kári, sér að gagnrýna. Hin sorglega staðreynd er sú að þeir hafa ekki vaxið upp úr stuttbuxunum og ef eitthvað er þá er farið að skína í rassinn beran. Ef fylgismenn Sjálfstæðisflokksins átta sig ekki þá þessu, og reka hnefann á réttan stað, þá er flokknum ekki viðbjargandi. Tvö frjálshyggjufóstur sem hyggjast hanga utanlegs er ekki uppskrift farsælum kosningaúrslitum. Út með þá báða og vitum hvort þeir spjara sig í atvinnulífinu. Mér kæmi á óvart ef þeir yrðu ýkja borubrattir þar.
Telur stjórnlagaþing kosta meira en milljarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2009 | 16:38
Mikið var
Íslendingar hafa lengi barist fyrir því að veiðum á úthafskarfa (djúpkarfa) sé stjórnað með tilliti til þess að um fleiri en einn stofn sé að ræða. Það var því vonum seinna að fallist hafi verið á sjónarmið okkar í þessu máli.
Allt, sem kemur fram í frétt Mbl.is, er í samræmi við sjónarmiðin sem Íslendingar hafa haldið fram í örugglega áratug. 500 metra dýpislínan hefur jafnan verið notuð til viðmiðunar. Því hefur sömuleiðis verið haldið fram af íslenskum fiskifræðingum að djúpkarfinn neðan við 500 metra mörkin sé af tveimur aðskildum stofnum. Fyrir vikið hafa menn ekki verið kátir með það að erlend skip hafi legið á 200 mílna lögsögumörkunum og hugsanlega verið að veiða íslenskan djúpkarfa.
Þrír aðskildir stofnar djúpkarfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)