6.2.2007 | 13:27
Fálki í Úlfarsfelli
Það var gaman að sjá fálka tilsýndar, sitjandi á steini, í Úlfarsfellinu nú í hádeginu. Svo sá ég ekki betur en að tófa hafi verið á ferð í næsta nágrenni. Að vísu er ég ekki sérfræðingur í tófusporum en ef sporin voru ekki eftir tófu þá hefur þar verið smáfættur hundur, einsamall á ferð.
Við Funi förum í göngutúr einu sinni á dag og oftar en ekki liggur leiðin í Úlfarsfellið. Þar taldi ég mest einar 50 rjúpur í haust eða um það leyti sem rjúpnavertíðin stóð sem hæst. Það var því við hæfi að í eina rjúpnaveiðitúr vertíðarinnar, sem farinn var vestur í Haukadal, sá ég ekki eina einustu rjúpu. En svona er lífið og veiðin.
Fálkinn, sem við gengum fram á, hefur því haft nóg að bíta og brenna í vetur. Við höfum rekist á rjúpnahami og fiðurhrúgur á nokkrum stöðum og sennilega hefur fálkinn átt þar hlut að máli. Ekki hef ég rekið augun í smyril en ekki er ólíklegt að hann eigi þarna einnig veiðilendur. Við sáum enga rjúpu í dag og það er ekki skrýtið þegar ,,bróðir" hennar er á svæðinu. Annars kemur háttalag rjúpnanna mér alltaf jafn mikið á óvart. Það er nokkuð öruggt að eftir hláku er rjúpan komin niður úr snjónum efst í fjallinu og að auðvelt er að koma auga á hana. Væntanlega er það fæðuþörfin sem ræður för en um leið vænkast hagur ránfugla. Ef ég væri rjúpa þá myndi ég ekki hætta mér í svona svaðilfarir nema einu sinni á dag og flýta mér sem fyrst aftur í skjól snjóskaflanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.