ESE

Ofanbyggðarbraut og sjávarbraut

Það er út af fyrir sig gott að komin sé fram álitleg tillaga til að leysa skipulagsmál á Vatnsmýrarsvæðinu. Auðvitað fer flugvöllurinn og það eru bara kjánar sem átta sig ekki á því. Ég tel ekki dreifbýlisþingmenn með í þeim hópi því afstaða þeirra er skiljanleg. Hver vill ekki komast á þing á 5 mínútum?

Vandinn í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins er hins vegar miklu meiri en menn vilja vera láta. Þótt menn fagni nú yfir því að komin sé fram tillaga sem leysir vanda á svæði, sem afmarkast af því þar sem lítill hluti íbúanna býr, verða menn að horfa á vandamálið í heild. Fram hefur komið að í sumum tillögum vegna Vatnsmýrarsvæðisins sé gert ráð fyrir lestarsamgöngum við Keflavíkurflugvöll. Það er vel og tímabært. Miðja höfuðborgarsvæðisins er hins vegar ekki grafin í Vantsmýrinni. Hún er í Mjódd (Reykjavík) og/eða í Smáranum í Kópavogi. Skammsýni skipulagsyfirvalda hefur leitt til þess að í hinu dreifbýla höfuðborgarsvæði eru umferðarhnútar á hverjum degi eins og í nágrenni þéttbýlustu heimsborga. Hver er vandinn? Auðvitað skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu sem og ríkisvaldið (Vegagerðin). Á svæðum eins og í Reykjavík og næsta nágrenni byrja menn á að leysa skipulagsmálin í umferðinni með því að létta á hlutum. Það er hægt að gera með sjávarbrautum, sem búið er að eyðileggja í Reykjavík með ýmsum hætti, sem og ofanbyggðarbrautum. Ég bý í Mosfellsbæ og ef ég þarf að fara til Keflavíkur snemma að morgni dags þá er ég jafn lengi að fara til Hafnarfjarðar og það tekur mig að aka frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Ég þarf m.ö.o. að þræða mig í gegnum misheppnað gatnakerfi höfuðborgarinnar til þess að komast á milli Mosfellsbæjar og Keflavíkur. Ofanbyggðarbrautir myndu leysa vanda minn og þeirra sem búa í Grafarholti, Grafarvogi, Árbæjarhverfi, Breiðholtshverfi og nýjum hverfum í Kópavogi.

Nú er eins og að borgarfulltrúar í Reykjavík hafi séð dúfu eftir að búið er að halda þeim á kafi í myrku kafi eigin skipulagsvitleysu mörg undanfarin ár. Meirihlutinn, sem tók við í upphafi kjörtímabilsins, var haldinn þeirri firru að reisa íbúðabyggð úti á Granda. Enginn hefur svarað því hvernig átti að þræða umferð þess hverfis í gegnum borgina. Mýrargata og Geirsgata í stokk leysa ekki hnútana sem myndast á leiðinni frá Granda og austur og Guð forði manni frá því að hugsa um biðröðina sem væri til baka seinni part dags. Vandinn við borgarfulltrúana í Reykjavík er m.a. sá að þeir eru allir uppteknir af því að reyna að hlaupa á eftir vinsældum. Þeir eru ákvörðunafælnir. Þeir geta ekki tekið slaginn við ríkisvaldið og sennilega er þeim öllum best líst sem viðutan. Eini maðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem virðist geta tekið ákvarðanir og staðið með þeim, er bæjarstjórinn í Kópavogi. Ég er ekki að mæla því bót að hann hafi farið eins og fíll í postulínsverslun í gegnum nágrannasveitarfélög, og það oftar en einu sinni, og lagt gróður í auðn (sem er mér ekki að skapi) en hann hefur haft sitt fram. Ég gef hins vegar lítið fyrir hinar dulurnar sem blakta eftir þeim vindi sem best hentar hverju sinni.


mbl.is Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta er mjög áhugavert sem þú setur fram hér. Auðvitað bráðvantar heildarlausnir í skipulagi á umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins og kominn tími til að menn reyni að sjá hlutina í víðu samhengi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.2.2008 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband