ESE

Stangaveiðihandbókin í góðum félagsskap

Það vakti óskipta athygli bókmenntagagnrýnandans Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Egils Helgasonar, þáttarstjórnanda Kiljunnar í Sjónvarpinu, þegar Páll Baldvin Baldvinsson, menningarritstjóri Fréttablaðsins, dró upp Stangaveiðihandbókina í þættinum í gærkvöldi.

 

Tilefnið var það að í tengslum við umfjöllun um Bókamarkaðinn í Perlunni fékk Egill þau Kolbrúnu og Pál Baldvin til að fara á bókamarkaðinn og velja fimm bækur hvort og leggja þar með nokkurt mat á það fjölbreytta úrval bóka sem þar hægt er að kaupa á hagstæðu verði. Niðurstaða Egils í lok spjallsins var sú að bókmenntasmekkur Kolbrúnar væri mun betri en Páls Baldvins og vó þar væntanlega þyngst að Stangaveiðihandbókin væri ekki nógu menningarlegt rit. Reyndar mátti skilja á Páli Baldvin að hann hefði litið svo á að hlutverk hans með ferðinni á bókamarkaðinn hefði einfaldlega verið það að gefa áhorfendum smjörþefinn af því mikla og fjölbreytta bókaúrvali sem í boði væri. Hann hafi ekki litið á þennan leik sem keppni í bókmenntasmekk. Hvað um það. Páll Baldvin var greinilega sá eini þremenninganna sem lesið hafði Stangaveiðihandbækurnar og hlý orð hans í garð ritraðarinnar glöddu þann sem þetta skrifar. Annars var bókalisti gagnrýnendanna sem hér segir:

 

Kolbrún:

 

- Bjargvætturinn í grasinu – J.D. Salinger (þýðing Flosi Ólafsson)

- Margs er að minnast – Kristján Albertsson

- Frú Bovary – Gustave Flaubert (þýðing Pétur Gunnarsson)

- Ritsafn – Benedikt Gröndal

- Karmazov bræðurnir – Fjordor Dostoevsky

 

Páll Baldvin:

 

- Ritsafn – Þorsteinn frá Hamri

- Ljós í ágúst – William Faulkner (þýðing Rúnar Helgi Vignisson)

- Stangaveiðihandbókin – Eiríkur St. Eiríksson

- Vitfirringar keisarans – Jaan Kross (þýðing Hjörtur Pálsson)

- Drekaeldur – Jane Johnson (barnabók)

 

Hægt er að horfa á þáttinn á meðfylgjandi tengli: Kiljan .

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband