24.4.2008 | 18:10
Lögreglan sett í slæma stöðu
Því miður hafa stjórnvöld í landinu sett lögregluna í ákaflega slæma stöðu hvað varðar þær deilur sem staðið hafa á milli flutningabílstjóra og yfirvalda vegna hækkunar olíuverðs og vinnutímamála. Svo virðist sem að upp úr hafi soðið með aðkomu utanaðkomandi manna að málinu. Skríllinn má ekki ráða ferðinni í þessum málum.
Lögreglulið landsins er mestan part skipað mjög hæfum mönnum. Í þeirri stétt eru þó, eins og víðast hvar annars staðar, menn sem ekki valda starfi sínu. Mótmæli flutningabílstjóra eru um margt skiljanleg. Stórkostlegar hækkanir á olíu- og bensínverði bitna hvað harkalegast á þeim og allur almenningur finnur það á pyngju sinni. Á meðan fitnar ríkissjóður eins og púkinn á fjósbitanum. Röksemdir eins og þær að álögur á eldsneytisverð fari allar til vegamála duga ekki. Ráðherrar fjármála- og samgöngumála eru allsberir í málflutningi sínum þótt þeir reyni að telja alþjóð trú um að þeir séu í sparifötunum.
Borgaraleg óhlýðni getur verið ágæt en hún fellur um sjálfa sig þegar ráðist er með offorsi og valdi gegn lögreglunni. Á meðan lögreglan gerir sitt besta til að halda uppi lögum og reglu þá spila leiðtogar ríkisstjórnarinnar tvímennt á fiðlu. Þeim virðist ekki leiðast að horfa á logann sem kveiktur hefur verið. Laglausu fólki er tæplega trúandi fyrir því að leiða þjóðarkórinn. Um flutningabílstjóra má segja að krafa þeirra um breytingar á vinnutímatilhögunni og leyfi til að aka meira á hverjum sólarhring en góðu hófi gegnir, á trúlega ekki mikinn hljómgrunn í þjóðfélaginu. Umferðin á vegum landsins er dauðans mál og á henni þarf að taka af alvöru. Hún má aldrei verða skiptimynt í deilum bílstjóra og púkans á fjósbitanum.
Ráðist á lögregluþjón | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.