24.6.2008 | 00:33
Nú rignir gulli í Kjósinni
Sagt er að þolinmæðin þrautir vinni allar. Ég get tekið undir það. Eftir tæplega 12 ár frá gróðursetningu þá sé ég blóm á gullregninu mínu hér í Kjósinni. Þau eru reyndar baneitruð en fögur engu að síður.
Ég vissi það s.s. að það myndi taka a.m.k. 10 ár til að fá fjallagullregn til að blómgast. Þá var væntanlega miðað við betri aðstæður en eru hér í sveitinni. Hvað um það. Nú rignir gulli í Kjósinni og það er því við hæfi að vitna í dagbókarfærslu frá 24. Júlí 2006.
,,Fórum austur í Sólheima i Grímsnesi og Laugarás. Keyptum tvær aspir (´depil´ og ´sölku´) og fjölærar plöntur. Í Laugarási fengum við fjallagullregn og skógartopp + timian og oregano...
Ég hef undanfarin ár horft öfundaraugum á gullregn nágranna minna í Mosfellsbænum og velt því fyrir mér hvort Laugarástréð mitt muni nokkru sinni bera blóm. Sennilega var bara þess tími kominn. Það eina, sem ég gerði fyrir það í vor, var að bera á það kalkáburð og svo fékk það skammt af moltu. E.t.v. má vera að gullregnið hafi samt skynjað að ekki alls fyrir löngu flutti ég töfratré á staðinn. Það er merkilegur runni sem fylgt hefur mér frá því að ég bjó á Akureyri fyrir tæpum aldarfjórðungi. Töfratréð ber nafn með réttu því það er ólíkt öllum öðrum að því leyti að það blómgast áður en það laufgast. Síðar koma fagurrauð ber á greinarnar en allt er þetta baneitrað líkt og gullregnið. Það merkilega við töfratréð mitt er það að framtakssamur fugl tók að sér að skíta reyniviðarfræi beint niður í helgidóminn. Fyrir vikið á ég í dag ákaflega fallegt reynitré sem vex upp úr töfratrénu. Ef það eru ekki töfrar, hvað þá? Hvað um það. Ég verð að gæta að mér að halda hundinum og barnabörnum framtíðarinnar frá þessum varasömu trjám.
Athugasemdir
Hvar fær maður annars gullregn ? Þetta baneitraða tré er einhver fallegasta planta sem til er !
Ragnheiður , 24.6.2008 kl. 00:50
Held ég geti fullyrt að fjallagullregn sé til í öllum bestu gróðrarstöðvum landsins.
Eiríkur Stefán Eiríksson, 24.6.2008 kl. 00:55
gullregn fæst í öllum gróðrarstöðvum....en mikið vildi ég að bláregn þrifist hér.
Hólmdís Hjartardóttir, 24.6.2008 kl. 00:58
Enn er von. Ég man þá tíð, og það er ekki langt síðan, að maður mátti þakka fyrir 10-13°C sumarhita í Reykjavík að jafnaði með örfáum dögum sem undantekningu. Nú er hitinn 14-16° og oftar en ekki 16-19° að sumarlagi. Garðskálaplöntur eins og bláregn eiga e.t.v. erfitt uppdráttar ef hitinn á öðrum árstímum er ekki í lagi.
Eiríkur Stefán Eiríksson, 24.6.2008 kl. 01:16
Já takk fyrir þær upplýsingar. Ég athuga málið
Ragnheiður , 24.6.2008 kl. 08:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.