9.10.2008 | 10:06
Í guðanna bænum, takið eldspýturnar af manninum!
Fyrirsögnin hér að ofan er tilvísun í það að eitt sinn fyrir mörgum árum fór fjölskyldan á svokallaða Þrettándabrennu hér í Mosfellsbænum. Með í för voru vinahjón okkar og þeirra börn. Börnin voru vonsvikin því engum álfum hafði verið hent á bálköstinn eins og þó hafði verið boðað í sumum auglýsingum. Eftir var þó hápunkturinn, sjálf flugeldasýningin.
Á meðan beðið var eftir því að flugeldarnir lýstu upp himingeiminn dunduðu menn sér við eitt og annað. Ekki fjarri okkur var maður, greinilega vel við skál, með fleira fólki. Sá hamaðist við að kveikja í ýmiss konar skotblysum og jafnvel litlum flugeldum inni í mannþrönginni. Gekk þetta svo um stund eða allt þar til vinur minn gekk til mannsins og félaga hans. Í stað þess að ræða við óreiðumanninn beindi hann orðum sínum til félaga hans og sagði: ,,Í guðanna bænum, takið eldspýturnar af manninum!"
Þessi litla saga minnir á að enn fara menn óvarlega með eldspýtur og að ekki er öllum treystandi fyrir þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.