18.10.2008 | 01:06
,,Vitringarnir" þrír
Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús. Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir um 3,5% á fimmtudag úr 15,5% í 12%. ,,Vitringarnir" þrír í fílabeinsturninum í Seðlabankanum brutu þá odd af oflæti sínu og viðurkenndu brot af afdrifaríkum mistökum sínum.
Helsta röksemd Seðlabankans fyrir háum stýrivöxtum á undanförnum mánuðum og misserum er sú að sporna hafi þurft við verðbólgu vegna þenslu. ,,Óreiðumennirnir" í bankastjórn Seðlabankans eru sennilega þeir einu sem sjá þenslu í þjóðfélaginu nú um stundir. Satt best að segja þá virðast þessir góðu menn helst lifa eftir kenningum Rauðu khmerana í Kambodíu eða stjórnleysingja sem vilja brjóta allt niður áður en til greina kemur að huga að uppbyggingu. Seðlabankastjórnin, sem unnið hefur leynt og ljóst að því að koma fyrirtækjum landsins á kné, situr í umboði Alþingis og forsætisráðherra. Þar liggur ábyrgðin. Ökuréttindin eru tekin af þeim sem ekki kunna að fara með bifreiðar. Brotamenn eru settir í tukthús, þótt sumum sé hleypt út alltof snemma eins og dæmin sanna. Er ekki kominn tími til að binda enda á hryðjuverk Seðlabankastjórnar og þótt fyrr hefði verið?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.