25.11.2008 | 22:38
Er ekki rétt að taka til varna fyrir Geir?
Ég velti því fyrir mér í alvöru hvort mótmælin gegn ríkisstjórninni séu farin að jaðra við lýðskrum. Ekki ætla ég að bera í bætifláka fyrir þau mistök sem ráðherrarnir kunna að hafa gert í aðdraganda bankahrunsins en það er samt afskaplega billegt að stilla þeim upp sem skotspónum á sviði Háskólabíós og láta skammirnar dynja á þeim. Það er ekki íslenska aðferðin.
Nú má vel vera að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu ábyrgir fyrir hinu og þessu í kjölfari þeirra hörmunga sem dunið hafa yfir þjóðina. Úr þessu þá held ég að mál séu komin í þann farveg að enginn geti vænst ,,hvítþvottar". Verði það niðurstaðan þá er full ástæða til að velta mönnum upp úr tjöru og fiðri en fyrr ekki.
Ég verð að segja eins og er að mér finnst Geir H. Haarde hafa komist vel frá því að skýra hina erfiðu stöðu. Enginn af hans forverum í starfinu hefði gert betur. Ekki er ég í Sjálfstæðisflokknum og mér gæti ekki staðið meira á sama um útkomu þess flokks í þingkosningum en ég kaupi rök Geirs um það að það sé bull að fara í kosningar í febrúar. Apríl eða maí hugsnast mér betur.
Athugasemdir
Er þér hjartanlega sammála, mér finnst þetta gengið út í einhverjar öfgar satt að segja, samsæriskenningarnar fljúga á milli þessara manna sem hæst hafa og eru þeir þess vissir að verið sé að vinna eitt stórt samsæri á bak við þá og verið sé að fela eitthvað ofboðslega stórt . Því miður þá eru sumir mjög áhrifagjarnir og í dag er auðvelt að halda áróðri lifandi og sumir njóta sín best í ólgusjó.
Kreppa Alkadóttir., 25.11.2008 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.