24.8.2009 | 00:12
Íslendingar ferðast minna til útlanda en ekki hvað?
Rak augun í þessa fyrirsögn á Mbl.is í kvöld. Ég er ekki hissa. Það er búið að setja venjulega Íslendinga í farbann og fjötra sem ekki hafa tíðkast síðan hreppsómagar voru og hétu. Það liggur við að það borgi að brjóta af sér og eiga Brimarhólmsvist að launum. Íslendingur með íslenskar krónur að fararteski fyrir gjaldeyriskaup sem ferðast um í Noregi þarf að greiða 260 ISK fyrir lítrann. Á Ítalíu er lítraverðið u.þ.b. 245 ISK fyrir lítrann. Hér heima er bensínverðið að sliga flesta bíleigendur og er það þó töluvert lægra.
Einu hef ég tekið eftir og það er fjandskapur stjórnvalda í garð eigenda dísilbíla. Því var haldið fram á sínum tíma að dísilbílar menguðu minna en bensínbílar en sú skoðun var oftúlkuð. Málið er hins vegar það að dísilbílar eyða minna en bensínbílar og því menga þeir minna en bensínbílarnir. Þetta er eins og með hvítu kindurnar og þær svörtu í gátunni góðu. Vegna þessa hafa íslensk stjórnvöld til skamms tíma snúið öllum þessum málum á hvolf, gefið skít í mengun og aðeins hugað að gróðahyggju. Þegar það munaði 20 ISK/ltr. á verði bensínlítra og dísillítra fyrr í sumar, bensínlítranum í hag, þá var alls staðar annars staðar í Evrópu allt annað upp á teninginn. Þar þurfa stjórnvöld virkilega að huga að umhverfismálunum. Hér heima þá hugsa stjórnvöld, hvort sem þau eru til hægri eða vinstri, sennilega ekki um neitt. A.m.k. ekki neitt sem fær staðist aðra skoðun en þá að umhverfisvænt bón þurfi til að fægja ráðherrastólana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.