ESE

Til góðra vina þurfa að liggja gagnvegir

Það er vonum seinna að borgarstjórnarmeirihlutinn átti sig á því að allt tal um 6-10 þúsund manna íbúabyggð í Örfirisey er draumsýn þar til að hægt verður að tryggja greiðar og öruggar samgöngur frá þessu útnesi.

Þeir, sem búa og starfa í nágrenni Mýrargötu, hafa örugglega ekkert áttað sig á draumórum fyrr en e.t.v. nú eftir að formaður skipulagsnefndar hefur stigið fram fyrir skjöldu og lýst því yfir að vænlegasti kosturinn sé e.t.v. sá að gera jarðgöng frá Örfirisey undir höfnina og að Skúlagötu. Ætli Gísli Marteinn hafi áttað sig á stöðunni eftir að hafa reynt að komast yfir Mýrargötuna á álagstíma - með lífið í lúkunum og svitaperlur á enni?

Reyndar þarf ekki álagstíma til því Mýrargatan er örugglega ein hættulegasta umferðargata borgarinnar. Það er ekki nóg að þar sé þung umferð bíla af öllum stærðum og gerðum, heldur eru gangandi vegfarendur þvingaðir í hættulegt návígi við umferðina þegar snjóar. Gangstéttarnar við Mýrargötuna eru greinilega ekki á neinu skipulagi. Þaðan er snjó sárasjaldan rutt en bílarnir sjá um að skvetta slabbinu upp á gangstéttarnar og langt upp á húsveggi. Ég trúi því ekki að gamalt fólk búi við Mýrargötu, hvað þá fólk sem á erfitt með gang. Hvernig starfsfólk Íslandspósts á Mýrargötu 2 hefur farið að því að komast um með póstkerrurnar í færðinni í vetur er mér hulin ráðgáta.


Allir vildu Lindberg átt hafa

Nokkrar umræður hafa orðið í fjölmiðlum um danska handknattleiksmanninn Hans Lindberg sem nú tekur þátt í heimsmeistrakeppninni í Þýskalandi. Íslenskir fjölmiðlar segja hann vera alíslenskan. Sjálfur segist hannvera með danskt hjarta og nú vilja Færeyingar eigna sér hlut í honum.

Í Sosialurin í dag segir að Lindberg sé hálffæreyskur því faðir hans sé ættaður úr Trongisvági. Því miður geti Lindberg ekki leikið með Dönum í dag því hann sé lagstur í rúmið með flensu. Eða eins og það er orðað í Sosialurin:

,,Men tað verður uttan hann, at danir í kvøld fara at takast við Pólland um pláss í HM-finaluni. Lindberg hevur nevnliga fingið krím, og tí liggur hann í seingini, nú liðfelagarnir leggja seinastu hond á fyrireikingar sínar."


Eigum við að framselja sjálfstæði til að öðlast ,,hvalræði"?

Frétt á Mbl.is í dag um að Bretar hyggist hefja herferð gegn hvalveiðum Íslendinga kemur ekki á óvart. Náttúruleysi Breta er fráleitt leyndarmál og það kemur sömuleiðis ekki á óvart að þeir hyggist kúga nýjar ESB þjóðir og þær, sem standa í biðröðinni, til hlýðni. Það er spurning hvort Bretar ættu ekki að einbeita sér að því að leysa vandamálin heima fyrir s.s. mengun frá Sellafield og mengun hugarfarsins hjá einstaka ráðamönnum þessarar góðu þjóðar, áður en þeir beina spjótum sínum að þjóðum sem hafa staðið þeim miklu framar á öllum sviðum verndunar lífríkis hafsins - bæði fyrir og eftir að þeim var hent út úr íslensku lögsögunni. Breska ljónið er tannlaust og orðið elliært. Hafi það ekki verið gelt nú þegar af eigin frumkvæði er réttast að skella undan því í eitt skipti fyrir öll.

Annað mál. Reyndi að blogga þessa frétt á Mbl.is fyrr í kvöld. Það gekk ekki. Ætli ég sé orðinn álíka elliær og breski púðluhundurinn?


Líkams- og hugarræktin mín

Nú þegar landsmenn keppast við að sýna iðrun fyrir ólifnað á liðnu ári í formi fjárútláta og styrkja fyrir fjárplógsstarfssemi þá sem kennd er við líkamsræktarstöðvar, heilsustofnanir og jafnvel einkafyrirtæki sem telja sig lúta guðlegri forsjá, þá finn ég formið og lífsgildin í því að fara í göngutúra með hundinum mínum. Við erum jafningjar. Báðir jafn vitrir eða heimskir - eftir því hvernig á það er litið - eini munurinn er sá að Funi er með fjóra fætur og fer því hraðar yfir en ég. Eða það held ég að sé skýringin.

Við Funi erum vinir. Það er erfitt að skýra þá vináttu. Hún byggir ekki bara á því að ég sé húsbóndinn, heldur á gagnkvæmri ást og virðingu. Ég sé ekki sólina fyrir Funa en hann er tækifærissinni og elskar konuna mína jafn mikið og mig og jafnvel meira þegar hann á von á því að hún gefi honum að borða. Það er þroskandi að alast upp með dýrum og vera í samfélagi með þeim. Sumir menn virðast hafa hlaupið yfir grunnþarfirnar í leit að hamingjunni. Það hefðu þeir aldrei gert ef þeir hefðu átt kött eða hund, svo ég tali nú ekki um félaga eins og Fyrirmyndar-Funa.

Einhver nefndi það við mig á dögunum að ég elskaði hundinn meira en börnin mín. Það er ekki rétt. Hins vegar þurfti ég ekki að borga 150 þúsund krónur í startgjald fyrir þau - þótt það hafi verið skammgóður vermir - og þau eru nú að æfa á fjárplógsstöðvunum, sem Funi heldur mér frá, og konan mín líka. Er von nema að sagt sé að besti vinur hundsins (Funa) sé ég.

Myndin er tekin af Funa fyrir utan sumarbústað fjölskyldunnar í Kjós nú i byrjun janúar. Takið eftir gallanum. Jafnvel gallalausir hundar hafa gott af því að vera í göllum. Það sparar þvott á nokkrum handklæðum þegar inn er komið.

IMG_0752


Vitaðsgjafi

Þá er Vitaðsgjafi, sá dásamlega fallegi veiðistaður á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal, kominn á toppinn. Bið Funa afsökunar. Hann kemst þangað aftur um leið og ég hef fundið eða tekið mynd af honum sem hæfir ,,formatinu".

Bók Eiríks er enn á markaði

 

Ég leyni því ekki að mér brá nokkuð þegar ég las fyrirsögn á Mbl.is um að bók Eiríks hafi verið tekin af markaði. Enginn hafði haft fyrir því að láta mig vita.

Við nánari skoðun kom í ljós að ekki var átt við Stangaveiðihandbókina IV eftir undirritaðan, heldur fyrstu skáldsögu nafna míns Guðmundssonar en hún virðist hafa truflandi áhrif á fólk ef marka má það sem fram kemur í tilkynningu frá útgefanda. Mér létti enda hefur Stangaveiðihandbókin IV bara farið í taugarnar á bæjarráði Fljótsdalshéraðs. Það góða ráð heimtaði í sumar að Stangaveiðihandbókin IV yrði innkölluð hið snarasta vegna þess að einn viðmælenda minna áttaði sig ekki á því að bæjarráðsmönnum er illa við menn tjái skoðanir sínar ef það verður til þess að kusk komi á hvítflibba ráðsins. Sjálfur var ég svo ,,vitlaus" að leyfa manninum að segja satt í bókinni. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Meira síðar um það makalausa mál.

En Stangaveiðihandbókin IV er enn á markaði.SH4 forsíða-létt-bokatidindi

Eiríkur St. Eiríksson


Funi kominn á toppinn - fjallmyndarlegur

Manni rennur eiginlega blóðið til skyldunnar þegar maður sér hve virkir blaðamenn eru orðnir á blogginu á Mbl.is. Skref í þá átt er að laga útlitið á síðunni, notfæra sér þessa frábæru möguleika sem í boði eru og það hef ég gert með því að setja hann Funa minn á toppinn. Er einhver fjallmyndarlegri?

Funi þriggja ára


Ísland og Ítalía

Hver er munurinn á Íslandi og Ítalíu? Engin, nema hnattstaðan. Bæði lönd eru bananalýðveldi með hefð fyrir því að símar séu hleraðir hjá ráðamönnum. Það er prófkjör í gangi hjá Sjálfstæðisflokknum og hugsanlega einhverjum öðrum. Hendið banönum í Björn. Hann ber þess öll merki að geta gleypt þá og fortíðina líka. Hver vill horfa til framtíðar.

 


Velkomin á bloggsíðu ESE

Það er ekki annað hægt en að nýta sér snilldarþjónustu eins og þá sem Mbl. býður upp á með blogginu. Reynslan á svo eftir að skera úr um hve mikið ég mun nota þessa síðu. Ég sé hins vegar möguleika á að setja hér inn ýmislegt sem ekki á heima á heimasíðu fjölskyldufyrirtækisins, ESE-Útgáfu & fréttaþjónustu sf. Hér verður hægt að fjalla um áhugamálin, s.s. stangaveiðar og hundahald, og væntanlega ýmis þjóðþrifamál á hverjum tíma.

Eiríkur St. Eiríksson


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband