21.3.2007 | 23:42
Bítillinn, Heather og Ahab skipstjóri
Vek athygli á því að eigendur eða forráðamenn Starbuck´s hafa mjög einstrengingslega afstöðu til sjálfbærrar nýtingar hvalastofna. Þeir eru í raun ekkert betri en hryðjuverkamenn eins og Paul Watson í þeim efnum. Eiður Guðnason sendiherra vakti fyrstur athygli á þessu og sagðist ákveðinn í að fá sér aldrei kaffisopa hjá þessum hræsnurum. Ég tek undir með honum.
Nú þegar Bítillinn góðkunni hefur gengið í björg Starbuck´s þá efast ég um að hann komist heill út - villir hann, stillir hann - og hver veit nema að hann verði að gefa a.m.k. annan fótinn fyrir það hjálpræði. Þá verður líkt komið á með honum, Heather fyrrum heitmey hans og Ahab skipstjóra. Hvíti hvalurinn hefur gleypt þau öll eða a.m.k. hluta af þeim. Sennilega er Ahab sá eini sem vissi hvað hann var að gera í geðveiki sinni. Honum hefði aldrei dottið í hug að kaupa kaffi á Starbuck´s frekar en Eiði og mér.
Starbucks gefur út nýja plötu McCartneys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 23:10
Minni ruðningsáhrif?
Sem íbúa í Mosfellsbæ finnst mér gott að bæjarstjórinn átti sig á því að ,,ruðningsáhrif" hennar eru minni en bæjarstjóra Kópavogs. Reyndar held ég að fáir bæjarstjórar vilji haga sér eins og fílar í postulínsverslun eða sögunarverksmiðja í Heiðmörk.
Hér í Mosfellsbæ virðist reyndar enginn oddvita Sjálfstæðisflokksins vera maður með mönnum nema þeir geti reist þorp í kringum sig. Oddviti Vinstri-Grænna er af einhverjum ástæðum meðvirkur í vitleysunni. E.t.v. ætti þetta fólk að flytja í Kópavog. Ef ég man rétt þá var núverandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ (og bráðum fráfarandi) skólastjóri í því ágæta sveitarfélagi.
Mosfellsbær mun ekki kæra niðurstöðu Skipulagsstofnunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 18:36
Hótel Saga, Bændasamtökin og Voltaire
Ég var á árshátíð Stangaveiðifélags Reykjavíkur í gærkvöldi sem haldin var í Súlnasal Hótel Sögu. Fín hátíð og góð stemmning en samt var ég með hálfgert óbragð í munni. Nýleg aðför að mannréttindum og tjáningarfrelsinu er ekki eitthvað sem maður kyngir svo auðveldlega þótt gott rauðvín og koníak sé í boði.
Ég vorkenni Bændasamtökunum og starfsfólkinu á Hótel Sögu fyrir þá dapurlegu ákvörðun sem tekin var í síðustu viku um að úthýsa erlendu fólki sem kjaftakerlingar segja að sé hugsanlega illa innrætt. Ég geri ráð fyrir því að Spaugstofan hafi farið á kostum í umfjöllun sinni um málið líkt og veislustjórinn og Borgfirðingurinn góðkunni, Gísli Einarsson, gerði á árshátíðinni. Hann hitti sennilega naglann á höfuðið þegar hann gat þess að Skoðunarlögreglan, sem hlýtur að vera í burðarliðnum, þyrfti að verða sér úti um klámhund til þess að þefa uppi illa þenkjandi ferðalanga á Keflavíkurflugvelli sem hafa í hyggju að spilla kristnum siðgildum þessarar frómu og guðhræddu þjóðar. Ég held að sama þjóð mætti hafa fræg ummæli franska heimspekingsins Voltaire í huga næst þegar móðursýkin tekur völdin. Í þeim krystallast allt þetta mál:
"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 08:59
Skessuskóflurnar og græni trefillinn
,,Hvað ungur nemur - gamall temur," segir í gömlu spakmæli. En hvað er verið að kenna? Fram hefur komið að hinn svokallaði ,,græni trefill", sem átti að umlykja höfuðborgarsvæðið með trjágróðri frá Hafnarfirði norður að Mosfellsbæ, er allur í henglum. Síðasta skemmdarverkið á þessu náttúruprjóni unnu skessuskóflur bæjarstjórans í Kópavogi og fyrrum fyrirtækisins með eyðileggingu trjálunda í Heiðmörkinni.
Rætt var við mann frá Skógræktinni í útvarpinu ekki alls fyrir löngu. Sá sagði að þrátt fyrir fögur fyrirheit borgar- og bæjaryfirvalda um græna trefilinn þá væri greinilegt að hugur fylgdi ekki máli. Alls staðar væri verið að troða íbúðabyggð inn á trjáræktarsvæðin. Þar sem skólabörn plöntuðu bakkaplöntum og sáu þær vaxa og dafna, þar er orðinn leikvöllur skessuskófla og byggingarkrana. Trén hafa ýmist verið eyðilögð eða þeim komið fyrir hjá vandalausum. Skilaboðin til skólabarnanna eru: Trúir þú virkilega á jólasveininn? Við vorum bara að plata!
Er nema von að það sé ýmislegt að í þessu blessaða þjóðfélagi og virðing fyrir verðmætum og eignum annarra í lágmarki ef miðað er við skilaboðin sem skólabörnunum hafa verið send af borgar- og bæjaryfirvöldum? Hér í Mosfellsbæ var nýlega skógræktarsvæði tekið undir byggingarframkvæmdir. Nýja nafnið er Krikahverfi. Þar var skessuskóflunum sigað á trén sem skólabörn og unglingar í vinnuskólanum höfðu plantað á allnokkrum árum. Upphaflegt byggingarsvæði var greinilega ekki nógu stórt því taka varð væna sneið af skógræktarsvæðinu til viðbótar. Ekki heyrðist hósti né stuna í talsmönnum Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Þeir sjá kannski ekki skóginn fyrir byggingarkrönunum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 15:57
Starfsfólk óskast hjá embætti Skoðanalögreglu Íslands
Hætt við klámráðstefnu hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.2.2007 | 08:56
Meðvirkni í Mosfellsbæ
Það vantar ekki að það standa yfir miklar framkvæmdir í Mosfellsbæ. Alls staðar er verið að grauta með jarðvinnuvélum og ný hverfi í bæjarfélaginu eru ekki færri en fjögur talsins. Er þá ekki talin með þétting byggðar við Hulduhóla. Athygli vekur að framkvæmdirnar eru ekki hvað minnstar í næsta nágrenni við heimili oddvita flokkanna sem stýra bæjarfélaginu.
Byrjum á Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra. Hún býr í Leirvogstungu. Þar er að rísa fjölmenn byggð í einkaframkvæmd á milli Köldukvíslar og Leirvogsár. Gott ef það verða ekki til þrjár lóðir á þeirri spildu sem bæjarstjórinn hefur haft fyrir sig og sína og hrossin.
Haraldur Sverrisson, formaður bæjarráðs, er samflokksmaður Ragnheiðar og verðandi bæjarstjóri. Athygli vakti að fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var mikill kraftur lagður í að leggja tengibraut að skikanum við Hulduhóla þar sem fjölskylda Haralds á hagsmuna að gæta. Þar verða til einhverjar lóðir þannig að verðandi bæjarstjóri er örugglega ekki minni framkvæmda- og lóðamaður en Ragnheiður.
Víkur þá sögunni að Karli Tómassyni, forseta bæjarstjórnar. Hann er í flokki sem nefnist Vinstri Grænir og hann býr í Álafosskvosinni. Karl sá á engar lóðir til að selja. Ofan við kvosina er býlið Helgafell. Þar á að leggja túnið undir íbúðabyggð. Þeir, sem þarna ætla að búa í túninu heima í framtíðinni, verða að komast hratt og örugglega til og frá heimilum sínum. Þess vegna þarf að leggja tíu þúsund bíla tengibraut rétt í jaðri gömlu verksmiðjuhúsanna í Álafosskvosinni. Forseti bæjarstjórnar getur ekki verið minni maður en bæjarstjórinn og formaður bæjarráðs. Hann leggst ekki gegn framkvæmdum sem eru til heilla fyrir bæjarfélagið. Ekki verður Karl sakaður um að skara eld að eigin köku en spurningin er sú hvort hann sé ekki orðinn óþægilega meðvirkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 10:15
Meira um fálkann í fellinu
Í fyrradag gengum við Funi fram á rjúpuleyfar í Úlfarsfellinu. Ekki var þó mikið eftir ef innyflin eru undanskilin, aðeins hluti af væng, annar fóturinn og svo nokkrar fjaðrir. Ég hugsaði ekki um það þá en það rann síðar upp fyrir mér að innyflin voru ófrosin.
Það kom mér s.s. ekki á óvart að finna dauða rjúpu eftir að hafa séð fálkann í fellinu degi fyrr en ég áttaði mig ekki á því fyrr en degi síðar afhverju hann skyldi innyflin eftir. Þá var allt horfið. Sennilegasta skýringin er sú að við höfum truflað fálkann við veisluborðið en ekki séð þegar hann flaug frá. Eftir að við fórum hefur hann svo lokið við matinn. Ég taldi mest einar 50 rjúpur á þessum stað í Úlfarsfellinu fyrr í vetur þannig að fálkinn, sem ég held að sé nýkominn á þessar veiðilendur, ætti að hafa nóg að bíta og brenna á næstunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 23:37
Lífið væri leiðinlegra án þingmanna eins og Kristins Gunnarssonar
Kristinn Gunnarsson er genginn úr Framsóknarflokknum og hefur fundið sér nýjan næturstað hjá Frjálslynda flokknum. Ég hef s.s. enga skoðun á þeim vistaskiptum en mér þætti sjónarsviptir af því ef menn eins og Kristinn hyrfu af Alþingi.
Og hver er ástæðan? Jú, hún er sú að Alþingi er uppfullt af geðlullum sem sjaldnast þora að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Fyrir utan foringjana og atkvæðamestu þingmennina er þetta samansafn af atkvæðalitlu fólki sem aldrei þorir að andmæla foyrstu sinni og telur hag sínum og lífeyri best borgið með því að brosa - og halda kjafti á réttum stöðum. Misskiljið mig ekki. Flestir þingmenn eru vel meinandi en þeir þora ekki að leggja sannfæringu sína að veði fyrir þingstólana. Það er munurinn á þeim flestum og Kristni Gunnarssyni.
Reyndar held ég að Kristinn hefði sómt sér vel í framboði umhverfissinna. Hann hafði döngun til þess að standa gegn einhverjum vitlausustu framkvæmdum Íslandssögunnar - Héðinsfjarðargöngunum. Fyrir það ber að þakka.
Ég hef s.s. ekkert sérstakt vit á pólítík en átta mig þó á því að eftir að Kristinn hefur gengið Frjálslyndum á hönd þá er pólítísk framtíð Valdimars Leós, nýs þingmanns Frjálslyndra, hæpin sem fyrr. Maður, sem ekki hafði vit á að hafa samband við flokksbundna Samfylkingarmenn í sínum heimabæ í prófkjörinu fyrr í vetur, er ekki vænlegur til atkvæðasmölunar fyrir sinn nýja flokk í aðdraganda kosninga á þessu vori.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 08:23
Gíslar krónunnar
Það var athyglisvert viðtal við fjármálaráðgjafa á Rás 2 í gær. Ekki var annað á honum að skilja að fjölskyldur í landinu og þess vegna fyrirtækin líka, væru gíslar krónunnar.
Í viðtalinu var m.a. rætt um okurvexti á lánum, há þjónustugjöld, ofurgróða bankanna og mikinn vaxtamun. Fjármálaráðgjafinn benti á að ef heimilin í landinu ættu þess kost að taka lán erlendis til þess að greiða niður skuldir sínar þá væri hægt að spara tugi milljóna króna í vaxtabyrði af algengustu húsnæðislánum. Og það jafnvel þótt greiddir væru 7,5% vextir erlendis af óverðtryggðum lánum.
Niðurstaða ráðgjafans var sú að ef þetta gengi eftir þá myndi krónan einfaldlega gufa upp og það væri helst að hægt væri að varðveita einhverja ímynd hennar innan veggja Seðlabankans. Oki yrði lyft af fólkinu í landinu sem verið hefði í gíslingu hjá krónunni.
Seint verður sagt að ég hafi mikið fjármálavit en þetta er eins og í ævintýrunum. Nú bíð ég bara eftir því að erlendir bankaprinsar og -prinsessur komi á sínum hvítu fánum og geri atlögu að krónunni ljótu þar sem hún situr í kastala sínum á Kalkofnsvegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 13:27
Fálki í Úlfarsfelli
Það var gaman að sjá fálka tilsýndar, sitjandi á steini, í Úlfarsfellinu nú í hádeginu. Svo sá ég ekki betur en að tófa hafi verið á ferð í næsta nágrenni. Að vísu er ég ekki sérfræðingur í tófusporum en ef sporin voru ekki eftir tófu þá hefur þar verið smáfættur hundur, einsamall á ferð.
Við Funi förum í göngutúr einu sinni á dag og oftar en ekki liggur leiðin í Úlfarsfellið. Þar taldi ég mest einar 50 rjúpur í haust eða um það leyti sem rjúpnavertíðin stóð sem hæst. Það var því við hæfi að í eina rjúpnaveiðitúr vertíðarinnar, sem farinn var vestur í Haukadal, sá ég ekki eina einustu rjúpu. En svona er lífið og veiðin.
Fálkinn, sem við gengum fram á, hefur því haft nóg að bíta og brenna í vetur. Við höfum rekist á rjúpnahami og fiðurhrúgur á nokkrum stöðum og sennilega hefur fálkinn átt þar hlut að máli. Ekki hef ég rekið augun í smyril en ekki er ólíklegt að hann eigi þarna einnig veiðilendur. Við sáum enga rjúpu í dag og það er ekki skrýtið þegar ,,bróðir" hennar er á svæðinu. Annars kemur háttalag rjúpnanna mér alltaf jafn mikið á óvart. Það er nokkuð öruggt að eftir hláku er rjúpan komin niður úr snjónum efst í fjallinu og að auðvelt er að koma auga á hana. Væntanlega er það fæðuþörfin sem ræður för en um leið vænkast hagur ránfugla. Ef ég væri rjúpa þá myndi ég ekki hætta mér í svona svaðilfarir nema einu sinni á dag og flýta mér sem fyrst aftur í skjól snjóskaflanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)