ESE

Skessuskóflurnar og græni trefillinn

,,Hvað ungur nemur - gamall temur," segir í gömlu spakmæli. En hvað er verið að kenna? Fram hefur komið að hinn svokallaði ,,græni trefill", sem átti að umlykja höfuðborgarsvæðið með trjágróðri frá Hafnarfirði norður að Mosfellsbæ, er allur í henglum. Síðasta skemmdarverkið á þessu náttúruprjóni unnu skessuskóflur bæjarstjórans í Kópavogi og fyrrum fyrirtækisins með eyðileggingu trjálunda í Heiðmörkinni.

Rætt var við mann frá Skógræktinni í útvarpinu ekki alls fyrir löngu. Sá sagði að þrátt fyrir fögur fyrirheit borgar- og bæjaryfirvalda um græna trefilinn þá væri greinilegt að hugur fylgdi ekki máli. Alls staðar væri verið að troða íbúðabyggð inn á trjáræktarsvæðin. Þar sem skólabörn plöntuðu bakkaplöntum og sáu þær vaxa og dafna, þar er orðinn leikvöllur skessuskófla og byggingarkrana. Trén hafa ýmist verið eyðilögð eða þeim komið fyrir hjá vandalausum. Skilaboðin til skólabarnanna eru: Trúir þú virkilega á jólasveininn? Við vorum bara að plata!

Er nema von að það sé ýmislegt að í þessu blessaða þjóðfélagi og virðing fyrir verðmætum og eignum annarra í lágmarki ef miðað er við skilaboðin sem skólabörnunum hafa verið send af borgar- og bæjaryfirvöldum? Hér í Mosfellsbæ var nýlega skógræktarsvæði tekið undir byggingarframkvæmdir. Nýja nafnið er Krikahverfi. Þar var skessuskóflunum sigað á trén sem skólabörn og unglingar í vinnuskólanum höfðu plantað á allnokkrum árum. Upphaflegt byggingarsvæði var greinilega ekki nógu stórt því taka varð væna sneið af skógræktarsvæðinu til viðbótar. Ekki heyrðist hósti né stuna í talsmönnum Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Þeir sjá kannski ekki skóginn fyrir byggingarkrönunum?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband