15.12.2007 | 00:41
Himnatré RÚV
Ég hjó eftir því í fréttum RÚV í kvöld að sagt var að 30 metra hátt tré og tæplega einnar aldar gamalt hefði fallið yfir Langholtsveginn og lokað götunni. Átti ég bágt með að trúa þessu þar sem ég hef fylgst með metingi Hallormsstaðamanna og Sunnlendinga, m.a. í Tumakoti í Fljótshlíð, um hæsta tré landsins. Síðast þegar ég fregnaði hafði hvorki tré norðan eða sunnan heiða náð 30 metra hæð en það kann þó að hafa breyst í sumar.
Í ljósi alls þessa þótti mér merkilegt, ekki síst þar sem ég er alinn upp í Voga- og Heimahverfinu og þekki trén við Langholtsveginn frá fornu fari mæta vel, að allt í einu væri vaxin þar upp risafura. Nú kemur í ljós samkvæmt frétt Mbl.is að tréð var vart nema fimmtungur af hæð RÚV og aldurinn um helmingur þess sem ríkisútvarp allra landsmanna bar á borð fyrir þjóðina. Og ég sem hélt að Helgi Hóseasson hefði einn einkaleyfi á ,,bulli" á Langholtsveginum. Býð spenntur eftir því að RÚV flytji nánari fréttir af ,,risafurunni" sem lokaði þessari merkilegu samgönguleið í hálftíma í dag.
Stórt grenitré lét undan veðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.