25.12.2007 | 00:59
Jólaandinn beint í æð
Í kvöld horfði ég á útsendingu Sjónvarpsins frá jólatónleikum í Fíladelfíukirkjunni mér til mikillar ánægju. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hið hæfileikaríka fólk, sem fram kemur, gleður mig með söng og hljóðfæraslætti. Mér datt í hug, þegar ég sá forseta Íslands sitja á fremsta bekk í kirkjunni, að gauka því að atstoðarmanni hans og orðuritara hvort ekki væri tími til kominn að Óskar, sá sem leiðir söng- og tónlistarlíf innan þessa merka safnaðar, fengi Fálkaorðuna fyrir starf sitt. Sá maður hefur unnið kraftaverk og jafnvel mér, efasemdarmanninum, dylst það ekki. Sömuleiðis væri við hæfi að Vörður Leví Traustason, forstöðumaður og prestur safnaðarins, fylgdi með á ,,Fálkagötunni". Báðir eru talsmenn kærleiks og málflutningi þeirra fylgja engar öfgar. Ég gæti sett upp hatt og tekið hann ofan fyrir því góða starfi sem þetta fólk er að vinna en ég geri það ekki. Það á betra skilið. Boðskapur þeirra er einlægur og öfgalaus og hlýtur að hitta allt réttsýnt fólk beint í hjartastað. Hið sama á örugglega við í öllum kirkjum landsins um þessi jól. Gleðileg jól.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.