ESE

Rétt ákvörðun en rangur populismi

Það er fágætur atburður að hvítabirnir gangi á land á Íslandi nú til dags, jafnvel þótt í fréttum hafi komið fram að til séu fleiri en 600 skráð tilvik um komu slíkra dýra hingað til lands á síðustu öld og í lok 19. aldarinnar. Því er ekki skrýtið að málið veki athygli. Í þessu sambandi er rétt að hafa tvennt í huga.

Hvítabirnir eru vafalítið einhver stórkostlegustu dýr sem uppi eru. Þeir eru háþróaðar veiði- og drápsvélar. Þá virðist ekki vera hægt að temja og vist í dýragörðum er sennilega það versta sem hægt er að bjóða þessum göfugu skepnum. Í fjölmiðlum hafa komið fram missagnir eða vísvitandi röng ummæli um hvernig farið er með hvítabirni í nágrannalöndunum. Haft var eftir fræðingi í útvarpsfréttum að í Noregi væri reglan sú að drepa dýrin þegar þau kæmu á fast land. Það er fráleitt rétt. Á Svalbarða, sem ekki er eykríli, eru hvítabirnir algjörlega friðaðir. Þar má aðeins drepa þessi dýr í algjörri nauðvörn og sönnunarbyrðin er rík. Sjálfur var ég á ferð á Svalbarða fyrir tæpum áratug í boði norska utanríkisráðuneytisins. Skömmu áður hafði hvítabjörn ráðist á tvær konur á fjalli fyrir ofan Longyearbyen, drepið aðra en hin slapp við illan leik. Þar var á ferð einmana karldýr en eins og fram hefur komið í fréttum þá virðast hvítabirnir ekki vera miklar félagsverur. Þeir kunna best við sig einir á veiðum og gott ef drápsbirninum á Svalbarða var ekki lýst sem hlaupadýri en þeir sem þekkja til íslenska refsins kannast e.t.v. við það hugtak. Hins vegar eru hvítabirnir ekki langhlauparar þótt þeir gætu vafalítið tekið kunna hlaupara, eins og t.d. Carl Lewis, í rassinn í spretthlaupum. Reglan er því sú að ef fólk sér til þessara skepna í kílómetra fjarlægð þá ætti það að eiga góða von á að forða sér á hlaupum nema þeim mun lengri leið sé í öruggt skjól. Á Grænlandi er gefinn út takmarkaður veiðikvóti á hvítabirni á hverju ári og eru ströng viðurlög við því að ekki sé veitt umfram kvóta. Að öðru leyti eru birnirnir friðaðir.

Hvað varðar drápið á bangsa á Þverárfjalli þá held ég, í ljósi aðstæðna, að engin önnur leið hafi verið fær. Fólk, sem heldur að hægt sé að hafa hvítabirni reikandi um afréttinn eða heimalönd bænda, veit einfaldlega ekkert hvað það er að tala um. Fram hefur komið að þoka var á svæðinu og hefði bangsi sloppið upp í fjallið er ómögulegt að segja til um hvar hann hefði sést næst. Hann hefði getað skokkað inn í bæinn á Sauðárkróki eða gert skráveifu á bæjum í Skefilsstaðahreppi.

Eðlilega hafa viðbrögð verið blendin vegna málsins. Umhverfisráðherra virðist vera úti á þekju í málinu. Það hefði að öllu óbreyttu átt að vera nægilegt áfall fyrir hana að mæla auknum álögum á bíleigendur bót á þessum degi þótt ekki bætist hvítabjarnardráp á ,,sakaskrá" ráðuneytisins. Sök ráðherrans og forvera henna í starfi í málinu felst þó aðallega í því að hún og stjórnkerfið allt var ekki undir það búið að bangsi kæmi í heimsókn. Það er umhugsunarvert fyrir ráðherrann. Reyndar var fréttin um að bæjarstjóri Vesturbyggðar teldi það 99,9% öruggt að olíuhreinsunarstöð risi í Hvestu í Arnarfirði miklu alvarlegra mál en það að hvítabjörn skuli hafa verið felldur í Skagafirði. Vonandi verða aðgerðaráætlanir umhverfisráðuneytisins í því máli skilvirkari en í bangsamálum.

Það versta við fréttina um hvítabjörninn er þegar stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu reyna að slá sér upp á málinu þegar ljóst er að kjósendur sluppu við skrekkinn. Dæmi um það er viðtal við Kolbrúnu Halldórsdóttur sem birtist í Sjónvarpinu í kvöldfréttum. Í það vantaði alla jarðtengingu en ekki populismann. Það er auðvelt að gagnrýna umhverfisráðherra, eins og ég geri í þessum pistli með tilvitnun í fréttir í fjölmiðlum, en það er algjörlega ábyrgðarlaust hjal af þingmanni VG að gera því skóna að aðrir kostir en að fella dýrið hafi verið í boði, sama þótt engin stjórn hafi verið á þeim verknaði önnur en heilbrigð skynsemi lögreglumannanna frá Sauðárkróki. Menn lokka ekki hvítabirni í gáma eða gerði með kjötbitum, hvað þá pólítískum brauðmolum.

Rétt í lokin þá er sömuleiðis athyglisvert að fólk virðist halda að norðan við Ísland sé íslaust svæði allt norður á Norðurpólinn. Svo er ekki. Í fyrra var eitt besta selveiðisvæði norskra selafangara í vesturísnum í Grænlandssundi norður af Vestfjörðum. Ein skútan var gerð út frá Ísafirði stóran hluta sumars og veiddi með afbrigðum vel. Og hver skyldi hafa verið í harðastri samkeppni við selveiðimenn um selbitann? Ætli það hafi ekki verið ættingjar hvítabjörnsins sem ógæfan skolaði upp á Íslandsstrendur.


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrheyr !! Ég held líka að fólk viti ekki hvað það er að tala um þegar það ver aumingja björninn... jú, í sjálfu sér alls ekkert sanngjarnt að drepa dýrið.. en hvort er skárra að hafa varann og klára það strax eða BÍÐA þartil dýrið skaði eitthvað/einhvern? jahh, það er akkurat það sem þarf fyrir ísland í dag til þess að eitthvað sé gert í málunum... Svona dýr eru stór hættuleg þósvo þau líti út fyrir að vera voða harmlaus,saklaus og sæt.. Bíðið bara þartil þau komast nær ...

Margrét Kristensen (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 20:57

2 identicon

Frábær grein hjá þér Eiríkur. Vel skrifuð og jarðbundin. Mér finnst nánast allt sem ég hef lesið um þetta atvik í dag, bera vott um móðursýki á hæsta stigi. Sumir vilja ganga svo langt í dýraverndinni að fórna megi nokkrum manneskjum fyrir einn hvítabjörn. Þakka þér fyrir að skrifa af skynsemi.

Kveðja,

Leifur.

Leifur (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband