ESE

Meðvirkni í Mosfellsbæ

Það vantar ekki að það standa yfir miklar framkvæmdir í Mosfellsbæ. Alls staðar er verið að grauta með jarðvinnuvélum og ný hverfi í bæjarfélaginu eru ekki færri en fjögur talsins. Er þá ekki talin með þétting byggðar við Hulduhóla. Athygli vekur að framkvæmdirnar eru ekki hvað minnstar í næsta nágrenni við heimili oddvita flokkanna sem stýra bæjarfélaginu.

Byrjum á Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra. Hún býr í Leirvogstungu. Þar er að rísa fjölmenn byggð í einkaframkvæmd á milli Köldukvíslar og Leirvogsár. Gott ef það verða ekki til þrjár lóðir á þeirri spildu sem bæjarstjórinn hefur haft fyrir sig og sína og hrossin.

Haraldur Sverrisson, formaður bæjarráðs, er samflokksmaður Ragnheiðar og verðandi bæjarstjóri. Athygli vakti að fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var mikill kraftur lagður í að leggja tengibraut að skikanum við Hulduhóla þar sem fjölskylda Haralds á hagsmuna að gæta. Þar verða til einhverjar lóðir þannig að verðandi bæjarstjóri er örugglega ekki minni framkvæmda- og lóðamaður en Ragnheiður.

Víkur þá sögunni að Karli Tómassyni, forseta bæjarstjórnar. Hann er í flokki sem nefnist Vinstri Grænir og hann býr í Álafosskvosinni. Karl sá á engar lóðir til að selja. Ofan við kvosina er býlið Helgafell. Þar á að leggja túnið undir íbúðabyggð. Þeir, sem þarna ætla að búa í túninu heima í framtíðinni, verða að komast hratt og örugglega til og frá heimilum sínum. Þess vegna þarf að leggja tíu þúsund bíla tengibraut rétt í jaðri gömlu verksmiðjuhúsanna í Álafosskvosinni. Forseti bæjarstjórnar getur ekki verið minni maður en bæjarstjórinn og formaður bæjarráðs. Hann leggst ekki gegn framkvæmdum sem eru til heilla fyrir bæjarfélagið. Ekki verður Karl sakaður um að skara eld að eigin köku en spurningin er sú hvort hann sé ekki orðinn óþægilega meðvirkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband