22.2.2007 | 15:57
Starfsfólk óskast hjá embætti Skoðanalögreglu Íslands
Það eru dapurlegar fréttir sem berast af fyrirhuguðu afturhvarfi þjóðarinnar til grárrar forneskju. Ég geri fastlega ráð fyrir því að í framhaldinu verði landinu lokað og auglýst verði eftir starfsfólki í Skoðanalögreglu Íslands. Um árið var það Falun Gong og nú eitthvað áhugafólk um klám. Hvað næst? Mannréttindi og tjáningarfrelsi innan ramma laganna er ekki eitthvað sem menn geta skreytt sig með í dag en fótum troðið á morgun.
Hætt við klámráðstefnu hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vel mælt Eiríkur!
Veistu hver launin verða hjá nýju löggunni?
Haukur Nikulásson, 22.2.2007 kl. 16:06
Þetta er svartur dagur í sögu Íslands. Við höfum skipað okkur á bekk með ríkjum þar sem mannréttindi eru ekki fyrir alla. Ef einhver heldur að koma hópsins hafi verið slæm landkyning þá gerir fólk sér ekki grein fyrir því hvað við vorum að enda við að gera. Þetta er eins og málið með hommana í Færeyjum. Þar töldu menn sig vera að hefja upp siðleg gildi.
Fannar frá Rifi, 22.2.2007 kl. 18:09
Ég geri ráð fyrir að launin verði lág því hugsjónafólk á það til að vinna fyrir lúsalaun ef það telur að það sé að gera gagn. Ekki vil ég mæla því bót.
Ég var að hugsa um að nefna það að enn væri verið að berja homma í Færeyjum og þætti ekkert tiltökumál en ákvað að sleppa því. Það er sennilega tvískinnungurinn í þessu máli sem fer mest í taugarnar á mér. Ég hlustaði á konu í Kastljósinu um daginn sem sagði að forræðishyggja væri eitur í sínum beinum. Nokkrum mínútum síðar var hún orðin talskona forræðishyggju af versta tagi. Rétt áðan heyrði ég í fréttatíma útvarps að allir þingflokkarnir á Alþingi hefðu ályktað gegn ferðafrelsi fólks og mannréttindum. Ég ætla rétt að vona að sú ályktun hafi ekki rist dýpra en þessi venjulegu loforð sem gefin eru korteri fyrir kosningar - til þess að svíkja þau.
Eiríkur Stefán Eiríksson, 22.2.2007 kl. 18:57
Ég sem hélt að þjóðin væri svo frjálslynd og nútímaleg, greinilega margfalt íhaldssamari en ég hélt. Oft gerum við grín að öfgatrú/öfgasiðferði sem finnst í suðurríkjum Bna, en erum svo sjálf ekkert skárri. Þetta viðbjóðslega ástand virðist tengjast þeirri forsjárhyggju og bannæði sem hefur farið vaxandi seinustu árin. Það eru tugir þúsunda fasista hér á landi sem sjá ekkert að því að þröngva eigin siðferði yfir aðra,
Svo finnst mér furðulegt að engir pólitíkusar þori að taka afstöðu með ráðstefnunni (eða einfaldlega afstöðu með eðlilegu ferðafrelsi fólks). Það eru örugglega einhverjir þingmenn sem hafa leynilega gaman af klámi, hlutföllin eru allavega slík að það er mjög ólíklegt að þeir séu allir á móti því. En hræðslan við pólitíska rétthugsun er mikil, sérstaklega rétt fyrir kosningar.
Geiri (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:39
Nú hefur Síminn sjálfur dreift klámi í gegnum heimasíðu sína www.hugi.is/kynlif til lengri tíma.
Þar fá börnin okkar aðgang að klámi og öðrum viðbjóð...
Af hverju setur enginn út á það?HÞS (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.