ESE

Það er byrjað að rigna!

Loksins, loksins...

Ef ég man rétt þá voru þetta upphafsorð á frægum ritdómi fyrir nokkrum áratugum. Nú læt ég mér nægja að nota þessi fleygu orð um rigninguna sem loksins hefur gert vart við sig hér í Kjósinni. Í gær hellirigndi í klukkutíma og í dag hafa skúrirnar verið nokkuð kröftugar.

Hún er undarleg þessi úrkoma. Á föstudag var spáð skúrum en þær náðu ekki einu sinni í dropatali sínu að rykbinda vegi sveitarinnar. Ástandið var ekki betra á laugardeginum en í gær kom hellidemba að erlendri fyrirmynd, lóðrétt og kröftug. Í dag hafa skúrnirnar ekki verið jafn kröftugar en þó fleiri. Lækir eru farnir að renna í Sandsfjallinu og loksins þarf ég að fara eftir sláttuvélinni í bæinn. Hef passað mig á að bera ekki áburð á grasflatirnar (mosann) en þeim mun meira á trén. Nú verður ,,gróðursprenging". Sem áhugamaður um veiði fagna ég úrkomunni. Ár landsins hafa verið niðri í grjóti og ég hef séð fleiri steina standa upp úr Meðalfellsvatni en ég minnist að hafa séð áður.

Það er hins vegar undarlegur andskoti að ef maður þráir eitthvað heitt, s.s. rigninguna, þá gefst maður fljótlega upp á grámyglunni. Þetta er auðvitað vanþakklæti en ef það heldur áfram að rigna þá þarf ég að verða mér úti um fleiri handklæði til að þurrka bleytuna af honum Funa mínum. Hann er tveggja handklæða hundur á sæmilegum rigningardegi. Ætli við förum ekki að svipast um eftir ánamöðkum. Mér skilst að þeir hafi selst á allt að 300 kr/stk. á dögunum. Það er margfalt kg/verð miðað við nautalundir, jafnvel þótt þær séu íslenskar.

Vona að síðasta ,,komment" verði ekki tilefni til umræðu um rasisma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband