ESE

Meiri harka í Færeyjum

Í tilefni af frétt á Mbl.is um meinta ölvun Jóannesar Eidesgaard þá þykir mér rétt að láta ráðherrann njóta vafans, a.m.k. fyrst um sinn. Þeir, sem fylgst hafa með stjórnmálum í Færeyjum, vita að þar er miklu meiri harka á milli stjórnmálamanna en á Íslandi. Það þarf a.m.k. að fara aftur til samskipta núverandi forseta og Seðlabankastjóra til að finna svipuð dæmi og eru nokkuð algeng í Færeyjum og siðan líklega aftur til tíma Hriflu-Jónasar til að finna samjöfnuð.

Íslendingar eiga a.m.k. ekki að taka þátt í því að gefa færeyskum ráðamönnum einkunnir. Okkur nægir vinarþel færeysku þjóðarinnar.


mbl.is Sakaður um að hafa verið ölvaður í boði hjá Ingibjörgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Vitringarnir" þrír

Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús. Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir um 3,5% á fimmtudag úr 15,5% í 12%. ,,Vitringarnir" þrír í fílabeinsturninum í Seðlabankanum brutu þá odd af oflæti sínu og viðurkenndu brot af afdrifaríkum mistökum sínum.

Helsta röksemd Seðlabankans fyrir háum stýrivöxtum á undanförnum mánuðum og misserum er sú að sporna hafi þurft við verðbólgu vegna þenslu. ,,Óreiðumennirnir" í bankastjórn Seðlabankans eru sennilega þeir einu sem sjá þenslu í þjóðfélaginu nú um stundir. Satt best að segja þá virðast þessir góðu menn helst lifa eftir kenningum Rauðu khmerana í Kambodíu eða stjórnleysingja sem vilja brjóta allt niður áður en til greina kemur að huga að uppbyggingu. Seðlabankastjórnin, sem unnið hefur leynt og ljóst að því að koma fyrirtækjum landsins á kné, situr í umboði Alþingis og forsætisráðherra. Þar liggur ábyrgðin. Ökuréttindin eru tekin af þeim sem ekki kunna að fara með bifreiðar. Brotamenn eru settir í tukthús, þótt sumum sé hleypt út alltof snemma eins og dæmin sanna. Er ekki kominn tími til að binda enda á hryðjuverk Seðlabankastjórnar og þótt fyrr hefði verið?


Það þarf að efla löggæslu og það sem fyrst

Lengi hefur verið rætt um að efla þurfi löggæslu í landinu. Hafi einhvern tímann verið þörf þá er hún aldrei meiri en nú á þeim upplausnar- og umbrotatímum sem við lifum á.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnvöld hafa verið að veikja löggæslu í landinu á undanförnum mánuðum og misserum. Klaufaskapurinn í þeim málum er síst minni en sá sem við höfum séð í samskiptum stjórnvalda við Breta og fleiri nú á síðustu dögum. Það má líkja þessu við landsleik. Staðan er 2:14 en það sem vekur athygli að sjálfsmörkin eru 10 eða fleiri. Það hlýtur að vera met.


Í guðanna bænum, takið eldspýturnar af manninum!

Fyrirsögnin hér að ofan er tilvísun í það að eitt sinn fyrir mörgum árum fór fjölskyldan á svokallaða Þrettándabrennu hér í Mosfellsbænum. Með í för voru vinahjón okkar og þeirra börn. Börnin voru vonsvikin því engum álfum hafði verið hent á bálköstinn eins og þó hafði verið boðað í sumum auglýsingum. Eftir var þó hápunkturinn, sjálf flugeldasýningin.

Á meðan beðið var eftir því að flugeldarnir lýstu upp himingeiminn dunduðu menn sér við eitt og annað. Ekki fjarri okkur var maður, greinilega vel við skál, með fleira fólki. Sá hamaðist við að kveikja í ýmiss konar skotblysum og jafnvel litlum flugeldum inni í mannþrönginni. Gekk þetta svo um stund eða allt þar til vinur minn gekk til mannsins og félaga hans. Í stað þess að ræða við óreiðumanninn beindi hann orðum sínum til félaga hans og sagði: ,,Í guðanna bænum, takið eldspýturnar af manninum!"

Þessi litla saga minnir á að enn fara menn óvarlega með eldspýtur og að ekki er öllum treystandi fyrir þeim.


Fá lykilstjórnendur ekki örugglega greitt í evrum?

Það er harðæri í fjármálaheimum og ekki síst á Glitnisheimilinu þar sem sagt er að Forseti, einn ásanna, búi. Hann mun vera goð sátta og réttlátra dóma ef marka má það sem hægt er að lesa á netinu. Vonandi sér hann til þess að lykilstjórnendur í Glitni fái örugglega launin sín greidd í evrum.
mbl.is Milljóna tap starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara einn kóngur í íslenskri tónlist og hann heitir Ásbjörn og er Kristinsson

Það er sama hvað sagt er um Bubba. Hann er og verður kóngurinn í íslenskri tónlistarsögu. Það kemst enginn með tærnar þar sem hann var með hælana í gær. Fyrir vikið ættu hælbítar að vakna fyrr á morgnana, telji þeir sig vera þess umkomna að glefsa.

Ég er einn af þeim, sem fylgst hefur með Bubba allt frá því að Ísbjarnarblús kom út. Þar áður þekkti ég hann sem helsta hrekkjusvínið í Vogaskóla. Ég, sem jafnaldri Bubba, er e.t.v. ekki besti maðurinn til þess að lýsa áhrifum hans á íslenska tónlistarsögu en sem betur fer þá þekki ég marga sem eru yngri en ég og undantekningarlaust þá dýrkar það fólk Bubba. Plöturnar eru misjafnar og ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri nýjustu. Sól að morgni finnst mér vera besta plata þessa meistara og Þúsund kossa nótt er að mínu viti hans allra besta lag. Sennilega vegna þess að ég sé möguleikann á að Bubbi og hetjutenór eins og Garðar Thor Cortez komi saman og syngi lagið - með tilvísun í Pavarotti og U2 í Miss Sarajevo. Gerist það þá verður ekki aftur snúið.

Til hamingju Bubbi. Ég veit að mótlætið eflir þig og sömuleiðis að þú kannt nú orðið að taka meðbyr. Látum gott af okkur leiða.


mbl.is Bubbi hefur gert betur en á Konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætla menn að átta sig á því hvar Eiður Smári á að spila?

Það var margt gott í leik íslenska liðsins í kvöld. Óli Jó er á réttri leið með liðið en það er samt tvennt sem vekur athygli mína.

Það kom berlega í ljós í undanúrslitum bikarkeppninnar að báðir aðalmarkverðir íslenska landsliðsins eru ákaflega brothættir og þá ekki síst markvörður KR sem gerði hverja bommertuna á fætur annarri í leiknum á móti Fjölni. Þegar hann meiðist þá er kallað á Fjalar Þorgeirsson sem sömuleiðis hefur fengið hvert klaufamarkið á sig á fætur öðru. Besti markmaður landsins, Gunnleifur í HK, fær engan séns og heldur ekki Ómar markvörður ÍBK. Það verður að spyrja sig þeirrar spurningar hvort markvarðaþjálfari landsliðsins ráði ferðinni í þessu sambandi eða hvort þjáfari landsliðsins ætli að spila svo stífan sóknarbolta að stilla megi ,,keilum" upp í markinu. Reyndar er ekki við Kjartan að sakast í leiknum í kvöld. Einhverjir hefðu væntanlega sjá hann slá boltann í vítinu ,,réttu" megin út og þar með út fyrir endamörk en það er ekki hægt að sakast við Kjartan í því máli. Hins vegar er hægt að setja veruleg spurningarmerki við frammistöðu varnarmanna.

Hvað voru varnarmenn íslenska landsliðsins að hugsa þegar fjórir Skotar voru nánast þeir fyrstu sem komust að boltanum eftir að Kjartan varði vítið? Fjórði Skotinn, sem var næst því að fylgja frákastinu, var við hliðina á fyrsta íslenska varnarmanninum sem áttaði sig á stöðunni. Hinir voru áhorfendur og þar á meðal fyrirliðinn sem hundskammaði sína menn á eftir en áttaði sig greinilega ekki á því að hann hefði átt að vera annað en áhorfandi. Tvö önnur dæmi má tilfæra um algjört ráðaleysi í varnarleik liðsins. Í annað skiptið tóku Skotar stutt horn og þá var eins og að varnarmenn okkar væru í fríi á Kanaríeyjum. Í hitt skiptið svaf vörnin algjörlega á sér og ef ekki væri fyrir frækilega frammistöðu Kristjáns þá hefði staðan verið orðin 0:2. Við þessu er aðeins eitt að segja. Leikur íslenska landsliðsins átti að ganga út á góða vörn og hún brást í þessum leik.

Hitt atriðið sem ég nefni er að Óli Jó virðist vera fastur í fari forvera sinna, sem ekki riðu feitum hesti frá landsleikjum sínum, með því að hafa Eið Smára skilgreindan sem framherja. Á heimavelli á Ísland tvímælalaust að hafa tvo framherja og Eið Smára þar fyrir aftan. Þar nýtast hæfileikar hans best. Ef einhver hefur horft á landsleikinn Króatía vs. England þá er Eiður Smári okkar Rooney. Heiðar Helguson er getur alveg virkað sem ,,target man" og jafnvel er Stefán Þórðar maðurinn i það hlutverk. Enska landsliðið getur jafnvel notað ,,útbrunna" leikmenn, sem enginn vill borga neitt fyrir, í það hlutverk. Gott dæmi um það er Heskey sem stóð sig fantavel í leiknum á móti Króatíu. Crouch er dæmi um annan leikmann sem er gulls ígildi fyrir lið eins og England. Ég get ekki látið hjá líða að koma því á framfæri að það voru einhver mestu og alvarlegustu mistök framkvæmdastjóra Liverpool að láta þann leikmann fara. Því er ég feginn þegar Utd. mætir Liverpool nk. laugardag.


mbl.is Skotar unnu nauman sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósvangur

Ég hef aldrei áttað mig almennilega á þörf íþróttafréttamanna til að flækja málin. ,,Leikvangur ljóssins" heitir að sjálfsögðu LJÓSVANGUR á íslensku.
mbl.is Tottenham krækti í stig á Stamford Bridge
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Gameplan" gegn ráðleysi í efnahagsmálum

Það var ótrúlegt að fylgjast með stórkostlegum móttökum þjóðarinnar þegar hetjurnar okkar frá Bejing sneru heim eftir ótrúlegan árangur. Móttökuathöfnin verðskuldar gull. Aðeins eitt setti blett á samkomuna, að mínu mati. Á pall stigu ráðherrar úr ráðlausri ríkisstjórn og nýr borgarstjóri sem rúinn er trausti.

Ekki vil ég gera lítið úr þeim góða vilja sem ráðamenn þjóðarinnar hafa sýnt íslenska landsliðinu í handbolta. Þar hafa farið fremst í flokki forseti Íslands, sem líkt og fyrr vex enn í starfi, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra mennta- og íþróttamála. Hennar ágæti eiginmaður er reyndar formaður landsliðsnefndar HSÍ þannig að sá stuðningur þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart.

Ég hjó eftir því í útsendingunni frá því í dag að viðmælendur fréttastofu Sjónvarps þeir Halldór Halldórsson og Guðmundur Andri Thorsson voru sammála um að sennilega væri best að landsliðshópurinn tæki við stjórn landsins. Það er nokkuð til í þessu. Verðbólgan er 14,5% og allt í kaldakoli í efnahagsstjórninni. Heimili landsins eru á leiðinni á uppboð þökk sé bönkum landsins sem í ljósi aumingjalegrar efnahagsstjórnar fengu hreðjatök á þeim sem tóku íbúðalán í upplausnarástandinu. Það er ekki nema von að almúginn fagni brauðmolunum sem hent er til þeirra nú þegar allt er að fara til andskotans. Innst inni vita menn að þeir fá ekki kökur. Það liggur við að ég skammi forsetann fyrir að taka þátt í að skera ríkisstjórnina niður úr þeirri snöru sem hún er búin að hengja sig í. Til þess að forða öllum misskilningi þá tók ég þátt í því að þessi ráðlausa ríkisstjórn komst til valda. Ég geri ekki sömu mistökin tvisvar.


mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær bók fyrir hundavini og alla aðra

Var að ljúka við að lesa bókina ,,Marley og ég" eftir bandaríska blaðamanninn John Grogan. Þetta er frábær lesning sem varpar góðu ljósi á það einstaka samband sem getur myndast á milli manns og hunds.

Ég vildi að ég hefði skrifað þessa bók en hundurinn minn er reyndar eins og fermingardrengur í samanburði við Marley. Samt sem áður þá þekki ég minn dreng á mörgum lýsinganna. Hvet alla til að lesa ,,Marley og ég". Þetta er mannbætandi lesning sem á erindi til allra. Hafi útgáfan bestu þakkir fyrir framtakið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband