Færsluflokkur: Bloggar
27.7.2008 | 17:08
Vegahreindýr
Á ferð minni um Fljótsdalshérað um helgina þá vakti það athygli mína hve mikið er af vegalömbum við þjóðveg 1 sem og á öðrum vegum í héraðinu. Rollurnar eru þó ekki einar um að sækja í vegina, sérstaklega malarvegina þar sem salt hefur verið notað til rykbindingar, því hreindýrin eru sömuleiðis ákaflega vegasækin.
Á ferð minni um Fellin, frá Fellabæ inn að Skriðuklaustri, rakst ég á tvo hreindýrahópa á veginum. Í hvorum voru 10 til 12 dýr. Ég hef áður keyrt fram á hreindýr í Hjaltastaðaþinghá, í Skriðdal, í Berufirði og að sjálfsögðu á leiðinni upp að Kárahnjúkum. Þar sá ég reyndar 50 til 60 dýra hóp um árið en hinir hafa allir verið minni ef undan er skilinn hópurinn í Berufirði. Þar lágu á að giska 30 dýr í túnfætinum á gömlu eyðibýli. Hvergi á ferðum mínum um landið hef ég rekist á betur girt landssvæði og það liggur við að á löngum köflum sé nánast ekki hægt að komast út af þjóðveginum vegna girðinganna. Af einhverjum ástæðum virðist sauðféð jafnan vera röngu megin við girðingarnar. Það þar því ekki að koma á óvart að hreindýrin gangi á lagið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2008 | 20:59
Gróður & garðar í Brekkukoti - Geitaskegg/jötunjurt (Aruncus dioicus)
Nu er röðin komin að geitaskeggi/jötunjurt (Aruncus dioicus) sem er einhver mín mesta uppáhaldsplanta hér í sumarbústaðarlóðinni. Ég sá þessa plöntu fyrst fyrir rúmum hálfum öðrum áratug en það var tilviljun að Björn, hinn góði garðyrkjumaður í Gróanda, gaf okkur hjónum tvær slíkar í kjölfar einhverra viðskipta sumarið 1994.
Það spillti ekki fyrir ánægju minni með geitaskeggið að hinn fjölfróði garðyrkjumaður, Hafsteinn Hafliðason, hafði tjáð mér áður að geitaskeggið væri vinsæl í limgerði á snjóþungum stöðum s.s. Ólafsfirði. Þar sem geitaskeggið risi alltaf úr öskustónni frá rót á hverju vori þá væri þessi planta hentugri en t.d. birki eða víðir sem brotnaði undan snjóþunganum á hverjum vetri.
Síðar. þegar ég var í fræklúbbi Blómavals, ræktaði ég upp tugi af geitaskeggjum upp af fræi sem ég held að hafi verið frá Kamsjakta. Gallinn við þær plöntur er hins vegar sá að þær halda ekki blómunum nema í viku eða tíu daga á meðan gamla og góða geitaskeggið hans Björns gleður augum í hátt í mánuð á hverju ári. Hvað um það. Ég elska þær ekkert síður.
Um geitaskeggið/jötunjurtina segir á vef Lystigarðsins á Akureyri: Ljósgult geitaskeggið með fínlegum blómum fer vel við dökkan bakgrunn og er sérlega fallegt í hálfskugga með burknum, skrautgrösum og sígrænum gróðri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2008 | 21:13
Gróður & garðar í Brekkukoti – Heggur (prunus padus)
Það er undarlegt en satt en mér þykir vænna um tré og ýmiss konar gróður en marga menn sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Ekki misskilja mig. Yfirleitt kann ég vel við fólk. Sumt elska ég og fyrir öðru ber ég virðingu. Einfaldleikinn er hins vegar bestur. Fátt er einfaldara en gróðurinn en hann er samt sem áður ákaflega margbrotinn. Sennilega er það rétt, sem sumir halda fram, að gott sé að faðma tré. Hef ekki reynt það ennþá en ég held að þeim, sem elskað geta tré, sé ekki alls varnað í lífinu. Hið sama á við þá sem eru dýravinir.
Upphaf þessarar hugleiðingar er það að ég hef verið hér í sumarbústaðnum mínum síðustu dagana og horft á gróskuna. Á undanförnum 14 árum höfum við hjónin plantað ótölulegum fjölda plantna í skikann okkar í Kjósinni. Þar, sem landið er lítið, lá strax ljóst fyrir að ekki yrði ráðist í skógrækt, heldur var einboðið að safna sem flestum tegundum eða yrkjum. Framan af vorum við eins og útspýtt hundskinn við að elta uppi hinar ólíkustu plöntur og varla leið sú vika að ekki væru heimsóttar tvær gróðrarstöðvar eða þrjár í viku hverri. Ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Þegar við töldum okkur hafa fullplantað í landið voru ,,sortirnar orðnar vel á annað hundrað talsins og þá undanskil ég allt annað en tré og runna. Þetta hefur verið einstaklega gefandi áhugamál, barátta, sorgir og sigrar. Ég áttaði mig ekki almennilega á þessu fyrr en ég gær þegar ég tók eftir því að 12 ára gamalt fjallagullregn varið farið að blómstra í fyrsta skipti. Ég tók að fletta í dagbókinni og við það rifjaðist upp ýmislegt sem ég var búinn að gleyma. Það varð til þess að mér datt í hug að leyfa fleirum að kynnast vinum mínum í Kjósinni. Ég ætla að byrja á heggnum mínum (prunus padus) sem ég keypti hjá Birni í Gróanda, einhverjum mesta ræktunarmanni landsins, fyrir rúmum 13 árum. Björn er vel að merkja karlinn í auglýsingunni sem fjallar um hin harðgerðu íslensku sumarblóm. Heimsækið hann í ræktunarstöðina í Mosfellsdalnum, rétt innan við Gljúfrastein. Björn er reyndar seintekinn og sennilega ekki allra en þið verðið ekki svikin af framleiðslu hans.
7. júní 1995: Komum um kl. 15 með birkitréð hans Villa, runnamuru (goldstar) og fagursýrenu ´elinor´ að heiman. Einnig 10 koparreynitré, fjallafuru, vonarkvist, hegg og sunnubrodd frá Gróanda. Vonarkvisturinn og sunnubroddurinn fóru í röðina niður með húsinu. Neðst á hornið fór fagursýrenan, heggurinn í röðina með geitaskegginu, lerkinu, reyniblöðkunni og yllinum. Fjallafuran var gróðursett fyrir neðan steinabeð að ofan og koparreynirinn í limgerðið að neðan.
Heggur (prunus padus) er af rósaætt og fræðast má um þetta merkilega tré í ýmsum ágætum bókum, s.s. Tré og runnar á Íslandi eftir Ásgeir Svanbergsson. Sjá einnig . Fram kemur að heggur geti orðið 10-15 m hátt tré en hérlendis geti hann orðið 6-8 m hár. Heggurinn er harðger og getur m.a.s. þrifist í grýttri jörð. Heggurinn minn, sem reyndar er ekki nema rúmlega tveggja metra hár, var gróðursettur í skriðu SV við bústaðinn og fyrir nokkrum árum fór hann að bera blóm, mér til mikillar ánægju. Fíngerð, hvít blómin duga varla lengur en í hálfan mánuð en þetta tré er sannkölluð garðaprýði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2008 | 00:33
Nú rignir gulli í Kjósinni
Sagt er að þolinmæðin þrautir vinni allar. Ég get tekið undir það. Eftir tæplega 12 ár frá gróðursetningu þá sé ég blóm á gullregninu mínu hér í Kjósinni. Þau eru reyndar baneitruð en fögur engu að síður.
Ég vissi það s.s. að það myndi taka a.m.k. 10 ár til að fá fjallagullregn til að blómgast. Þá var væntanlega miðað við betri aðstæður en eru hér í sveitinni. Hvað um það. Nú rignir gulli í Kjósinni og það er því við hæfi að vitna í dagbókarfærslu frá 24. Júlí 2006.
,,Fórum austur í Sólheima i Grímsnesi og Laugarás. Keyptum tvær aspir (´depil´ og ´sölku´) og fjölærar plöntur. Í Laugarási fengum við fjallagullregn og skógartopp + timian og oregano...
Ég hef undanfarin ár horft öfundaraugum á gullregn nágranna minna í Mosfellsbænum og velt því fyrir mér hvort Laugarástréð mitt muni nokkru sinni bera blóm. Sennilega var bara þess tími kominn. Það eina, sem ég gerði fyrir það í vor, var að bera á það kalkáburð og svo fékk það skammt af moltu. E.t.v. má vera að gullregnið hafi samt skynjað að ekki alls fyrir löngu flutti ég töfratré á staðinn. Það er merkilegur runni sem fylgt hefur mér frá því að ég bjó á Akureyri fyrir tæpum aldarfjórðungi. Töfratréð ber nafn með réttu því það er ólíkt öllum öðrum að því leyti að það blómgast áður en það laufgast. Síðar koma fagurrauð ber á greinarnar en allt er þetta baneitrað líkt og gullregnið. Það merkilega við töfratréð mitt er það að framtakssamur fugl tók að sér að skíta reyniviðarfræi beint niður í helgidóminn. Fyrir vikið á ég í dag ákaflega fallegt reynitré sem vex upp úr töfratrénu. Ef það eru ekki töfrar, hvað þá? Hvað um það. Ég verð að gæta að mér að halda hundinum og barnabörnum framtíðarinnar frá þessum varasömu trjám.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.6.2008 | 20:37
Rétt ákvörðun en rangur populismi
Það er fágætur atburður að hvítabirnir gangi á land á Íslandi nú til dags, jafnvel þótt í fréttum hafi komið fram að til séu fleiri en 600 skráð tilvik um komu slíkra dýra hingað til lands á síðustu öld og í lok 19. aldarinnar. Því er ekki skrýtið að málið veki athygli. Í þessu sambandi er rétt að hafa tvennt í huga.
Hvítabirnir eru vafalítið einhver stórkostlegustu dýr sem uppi eru. Þeir eru háþróaðar veiði- og drápsvélar. Þá virðist ekki vera hægt að temja og vist í dýragörðum er sennilega það versta sem hægt er að bjóða þessum göfugu skepnum. Í fjölmiðlum hafa komið fram missagnir eða vísvitandi röng ummæli um hvernig farið er með hvítabirni í nágrannalöndunum. Haft var eftir fræðingi í útvarpsfréttum að í Noregi væri reglan sú að drepa dýrin þegar þau kæmu á fast land. Það er fráleitt rétt. Á Svalbarða, sem ekki er eykríli, eru hvítabirnir algjörlega friðaðir. Þar má aðeins drepa þessi dýr í algjörri nauðvörn og sönnunarbyrðin er rík. Sjálfur var ég á ferð á Svalbarða fyrir tæpum áratug í boði norska utanríkisráðuneytisins. Skömmu áður hafði hvítabjörn ráðist á tvær konur á fjalli fyrir ofan Longyearbyen, drepið aðra en hin slapp við illan leik. Þar var á ferð einmana karldýr en eins og fram hefur komið í fréttum þá virðast hvítabirnir ekki vera miklar félagsverur. Þeir kunna best við sig einir á veiðum og gott ef drápsbirninum á Svalbarða var ekki lýst sem hlaupadýri en þeir sem þekkja til íslenska refsins kannast e.t.v. við það hugtak. Hins vegar eru hvítabirnir ekki langhlauparar þótt þeir gætu vafalítið tekið kunna hlaupara, eins og t.d. Carl Lewis, í rassinn í spretthlaupum. Reglan er því sú að ef fólk sér til þessara skepna í kílómetra fjarlægð þá ætti það að eiga góða von á að forða sér á hlaupum nema þeim mun lengri leið sé í öruggt skjól. Á Grænlandi er gefinn út takmarkaður veiðikvóti á hvítabirni á hverju ári og eru ströng viðurlög við því að ekki sé veitt umfram kvóta. Að öðru leyti eru birnirnir friðaðir.
Hvað varðar drápið á bangsa á Þverárfjalli þá held ég, í ljósi aðstæðna, að engin önnur leið hafi verið fær. Fólk, sem heldur að hægt sé að hafa hvítabirni reikandi um afréttinn eða heimalönd bænda, veit einfaldlega ekkert hvað það er að tala um. Fram hefur komið að þoka var á svæðinu og hefði bangsi sloppið upp í fjallið er ómögulegt að segja til um hvar hann hefði sést næst. Hann hefði getað skokkað inn í bæinn á Sauðárkróki eða gert skráveifu á bæjum í Skefilsstaðahreppi.
Eðlilega hafa viðbrögð verið blendin vegna málsins. Umhverfisráðherra virðist vera úti á þekju í málinu. Það hefði að öllu óbreyttu átt að vera nægilegt áfall fyrir hana að mæla auknum álögum á bíleigendur bót á þessum degi þótt ekki bætist hvítabjarnardráp á ,,sakaskrá" ráðuneytisins. Sök ráðherrans og forvera henna í starfi í málinu felst þó aðallega í því að hún og stjórnkerfið allt var ekki undir það búið að bangsi kæmi í heimsókn. Það er umhugsunarvert fyrir ráðherrann. Reyndar var fréttin um að bæjarstjóri Vesturbyggðar teldi það 99,9% öruggt að olíuhreinsunarstöð risi í Hvestu í Arnarfirði miklu alvarlegra mál en það að hvítabjörn skuli hafa verið felldur í Skagafirði. Vonandi verða aðgerðaráætlanir umhverfisráðuneytisins í því máli skilvirkari en í bangsamálum.
Það versta við fréttina um hvítabjörninn er þegar stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu reyna að slá sér upp á málinu þegar ljóst er að kjósendur sluppu við skrekkinn. Dæmi um það er viðtal við Kolbrúnu Halldórsdóttur sem birtist í Sjónvarpinu í kvöldfréttum. Í það vantaði alla jarðtengingu en ekki populismann. Það er auðvelt að gagnrýna umhverfisráðherra, eins og ég geri í þessum pistli með tilvitnun í fréttir í fjölmiðlum, en það er algjörlega ábyrgðarlaust hjal af þingmanni VG að gera því skóna að aðrir kostir en að fella dýrið hafi verið í boði, sama þótt engin stjórn hafi verið á þeim verknaði önnur en heilbrigð skynsemi lögreglumannanna frá Sauðárkróki. Menn lokka ekki hvítabirni í gáma eða gerði með kjötbitum, hvað þá pólítískum brauðmolum.
Rétt í lokin þá er sömuleiðis athyglisvert að fólk virðist halda að norðan við Ísland sé íslaust svæði allt norður á Norðurpólinn. Svo er ekki. Í fyrra var eitt besta selveiðisvæði norskra selafangara í vesturísnum í Grænlandssundi norður af Vestfjörðum. Ein skútan var gerð út frá Ísafirði stóran hluta sumars og veiddi með afbrigðum vel. Og hver skyldi hafa verið í harðastri samkeppni við selveiðimenn um selbitann? Ætli það hafi ekki verið ættingjar hvítabjörnsins sem ógæfan skolaði upp á Íslandsstrendur.
Ísbjörninn felldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2008 | 21:02
Afleit útvarpsskilyrði sem fara versnandi
Það hefur mikið verið gert úr þýðingu Ríkisútvarpsins sem öryggistækis þegar til hamfara kemur eða ef öryggi borgaranna er ógnað á einhvern hátt. Á það reyndi i dag og því miður brást RÚV sem fyrr á sumum svæðum.
Ég á sumabústað í Kjósinni og það eru gömul sannindi og ný að ef ekið er úr Mosfellsbænum í átt að Hvalfirði þá dettur sambandið við Rás 2 nánast út þegar komið er úr Kollafirðinum. Segja má að sasmbandslaust sé við rásir RÚV frá Tíðarskarði og þar til að komið er vel inn fyrir Eyri. Aðrar útvarpsstöðvar eru t.d. mun sterkari en RÚV á Kjalarnesinu. Í Kjósinni háttar þannig til að þar næst eiginlega aðeins samband við Rás 1 og 2, a.m.k. þar sem ég er, en sambandið hefur daprast upp á síðkastið og ef ég hefði ekki Digital Ísland þá væri staðan oft erfið. Það breytir þó engu um sambandið á leiðinni frá Kjalarnes í Kjós. Ég hef m.a.s. tekið eftir því að samband við 99,9 í Mosfellsbæ er nánast að hrynja og svo virðist sem að RÚV geti ekki viðhaldið sendum sínum.
Í dag var ég á leiðinni í Kjósina og fékk fréttir af jarðskjálftunum í símtali frá dóttur minni. Reyndi að stilla inn á Rás 1 og 2 en heyrði bara skruðninga. Sem betur fer er útvarpið í bílnum með LW móttakara en svo er ekki um öll bíltæki. Ábyrgð RÚV er mikil og svo virðist sem að stofnunin standi ekki undir henni. Ef svo er þá er forsendan fyrir afnotagjöldunum brostin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2008 | 15:08
Á íslensku?
Var að horfa á Ingva Hrafn spjalla við þingmennina Ármann Kr. Ólafsson og Jón Gunnarsson og Óla Björn Kárason á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Athyglisvert spjall en eitt vakti þó sérstaka athygli mína.
Þátttakendur í spjallinu ræddu m.a. um það virðingarleysi sem hlutafélög á markaði sýndu hluthöfum með því að birta aðeins ársuppgjör á ensku. Ég er sammála þeirri gagnrýni. Hins vegar virðist Ármann hafa gleymt því að sjávarútvegsráðuneytið stóð sig ekki miklu betur en hlutafélögin á þeim tíma sem hann var aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra. Upplýsingagjöfin var í molum en steininn tók úr þegar ráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu á færeysku í framhaldi af fundi sem Einar K. átti með starfsbróður sínum í Færeyjum. Ef það var ekki metnaðarleysi og virðingarleysi, þá hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 23:45
Margt er rotið í ríki Dana
Um fátt hefur verið meira rætt á síðustu mánuðum og misserum en íslenska efnahagsvandann. Hann er að sjálfsögðu til staðar og sumir segja að fjandvinir okkar, starfsmenn bankastofnana og fjárfestingarfyrirtækja í Danmörku, hafi lagt sitt af mörkum til að gera meira úr málum en efni standa til. Ekki veit ég það en hitt veit ég að margt er rotið í ríki Dana.
Á ferð minni til Danmerkur hef ég komist að því að hér virðist ríkja óðaverðbólga sem skyggir á allan íslenskan verðbólguvanda. Ég var hér fyrir réttu ári síðan og þá var allt í skikkanlegum skorðum. Vel að merkja þá er ég ekki að ræða um fall íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku heldur þá óðaverðbólgu sem hér virðist ríkja. Mér varð það á að setjast niður á veitingastað á Kastrupflugvelli með konunni við komuna til Danmerkur. Reikningurinn hljóðaði upp á 135 DKK eða um 2.100 ísl. krónur fyrir hálfan lítra af Carlsberg bjór og lítið hvítvínsglas. Reyndar kostaði hvítvínsglasið, sem sennilega hefur innihaldið innan við 20 sentilítra af Chablis, 75 DKK eða um 1.160 ísl. krónur. Dýr myndi Hafliði allur og þegar menn borga um 900 krónur fyrir bjórinn þá er fátt um varnir.
Leigubílstjórinn sagði mér á leiðinni frá flugvellinum í bæinn að Kastrupflugvöllur væri ræningjabæli. Ræningjarnir virðast vera víðar í dönsku viðskiptalífi því verðið á sömu veigum á veitingastöðum í miðbæ Kaupmannahafnar er það sama og á vellinum. Kunningjafólk mitt var í Kaupmannahöfn um liðna helgi og varaði mig við verðlaginu. Ég taldi þá að það væri að bulla en sé nú að það hafði lög að mæla. Það er eitthvað rotið í ríki Dana og það er fráleitt Íslendingum að kenna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2008 | 01:48
Hvenær fáum við ofanbyggðarveg?
Á næstunni þarf ég að fara úr landi og aka frá heimili mínu í Mosfellsbæ til Keflavíkurflugvallar sem að mér skilst að sé á forræði Sandgerðishrepps, a.m.k. að einhverju leyti. Ferðalag þetta endurspeglar skipulagsslys eða -leysi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.
Vandinn við þessa vegferð er sá að áður en ég kemst áfangastaðinn þá þarf ég að fara í gegnum Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð í það minnsta áður en ég kemst á beinu brautina sem ekki einu sinni er í boði Alcan. Reynsla mín af slíkum ferðum er sú að það taki helming heildarferðarinnar að komast til Hafnarfjarðar. Þetta segir mér aðeins eitt. Skipulag umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu er í ólestri og það er engu líkara en að vanvitar hafi ráðið ferðinni fram að þessu. Það er búið að eyðileggja Sæbrautina og engan höfum við ofanbyggðarveginn. Afhverju á ég að þurfi að heimsækja bæjarfélög, sem ég hef engan áhuga á að koma í, á leið minni til Keflavíkurflugvallar?
Ég átta mig á því að ofanbyggðarvegur gæti þurft að liggja um viðkvæm svæði s.s. í nágrenni Elliðavatns en mér sýnist að fíllinn í bæjarstjórastólnum í Kópavogi hafi fengið skotleyfi á slíkar postulínsverlsanir að undanförnu án þess að mikilvægir hagsmunir hafi legið við. Samgöngumálin eru eitt það brýnasta sem við þurfum að takast á við í framtíðinnni. Má ég frekar biðja um fíla en vanvita til þess að ryðja brautina þannig að þessi mál komist í skikkanlegan farveg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2008 | 23:14
Upprisa án undangenginnar krossfestingar
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kom, sá og sigraði á árshátíð Stangaveiðifélags Reykjavíkur í gærkvöldi. Urgur hafði verið í sumum félagsmanna vegna vals stjórnar á Guðna sem heiðursgests en Guðni svaraði í ræðu sinni gagnrýnisröddunum og bætti um betur og fékk salinn á band með sér.
,,Heiðursgesturinn fór á kostum og hélt þá albestu tækifærisræðu sem ég hef heyrt," segir Bjarni Júlíusson, fyrrverandi formaður SVFR, um ræðu Guðna og undir þau orð getur ritari tekið. Um gagnrýnina á Guðna má lesa á spjallvef SVFR á tenglinum http://www.svfr.is/forum/forum_posts.asp?TID=682&PN=1 en óþarfi er að þreyta lesendur með þeim orðahnippingum sem þar hafa átt sér stað. Guðni sagði í upphafi máls síns á árshátíðinni að hann hefði verið haldinn kvíða og lítt sofið kvöldið fyrir árshátíðina. Hann hafi dreymt að hann væri dáinn og hitt Össur Skarphéðinsson, fjandvin sinn og vopnabróður í pólítíkinni, fyrir utan Gullna hliðið. Þar hafi Lykla-Pétur tekið á móti þeim og vísað Össuri til dyngju með leikkonunni Brigitte Bardot á meðan Guðna var vísað til vistar í klefa við illan aðbúnað. Sagðist ráðherrann fyrrverandi hafa spurt Pétur að því hvers hann ætti að gjalda umfram Össur og vísaði til allra þeirra mála sem hann hefði unnið að sem ráðherra landbúnaðarmála. Eftir að hafa gengið á Pétur segir Guðni að svarið hafi einfaldlega verið það að hann varðaði ekkert um það hvað Brigitte Bardot hefði brotið af sér í lífinu. Aðrir samferðarmenn Guðna sátu víst á sama gangi og rauluðu eitthvað um sjö mílur frá sænum og bókhaldsmál á Bergþórshvoli.
,,Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á góðu þegar ég kom hingað og var kvíðinn," sagði Guðni og gat þess að hann hafi talið að óreiðirnar sem brutust út á Suðurlandsvegi í gær hefðu verið undanfarinn að fyrirhugaðri krossfestingu stangaveiðimanna á honum í veislusalnum á 20. hæð í Turninum í Kópavogi. Ekki minnkaði sá kvíði þegar formaður Framsóknarflokksins fregnaði að þetta væri aðeins í annað sinn í rúma sex áratugi að árshátíð SVFR væri haldin annars staðar en í Bændahöllinni. Síðast þegar það gerðist og árshátíðin var haldin í Perlunni fyrir allmörgum árum hafi þurft að kalla til lögreglu vegna slagsmála. En Guðni þurfti engu að kvíða. Í ræðu hans kom fram að stangaveiðimenn væru rjómi samfélagsins, menn náttúrunnar og bestu synir og dætur lýðveldisins. Fólk að skapi sveitapiltsins og náttúrubarnsins frá Brúnastöðum.
Hægt væri að tilfæra hér fleiri dæmi um innihald ræðu Guðna Ágústssonar á árshátíð SVFR en þær tilvitnanir væru alltof fátæklegar til þess að gera þessum merkilega viðburði marktæk skil. Niðurstaðan er hins vegar sú að Guðni Ágústsson er trúlega besti tækifærisræðumaður landsins. Það eru ekki margir sem geta snúið meintri krossfestingu í upprisu án þess að nokkur láti lífið en allir hafi töluverðan sóma af. Hafi Guðni Ágústsson og hans ágæta eiginkona, Margrét Hauksdóttir, bestu þakkir fyrir komuna á árshátíð SVFR. Því er ekki að leyna að margir stangaveiðimenn voru ekki sáttir við sum verk fyrrverandi landbúnaðarráðherra og mislíkaði forgangsröðunin. Yfir þau deilumál hefur verið slegið striki að hálfu SVFR og eftir því var tekið að sumir af helstu gagnrýnendum Guðna risu úr sætum og hylltu hann í ræðulok. Drengskaparmaður og þungaviktarmaður í íslenskri pólítík hefur séð ljósið og slíkum liðsmanni ber að fagna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)