ESE

Færsluflokkur: Bloggar

Það verður þröng á þingi

Það má búast við því að það verði þröng á þingi á heiðum landsins í nóvembermánuði ef undan eru skildir mánudagar, þriðjudagar og miðvikudagar. ,,Hersveit hinna fyrrum fordæmdu" mun mæta grá fyrir járnum hina fjóra dagana og ef að líkum lætur verður álagið mest þær fjórar helgar sem puðra má á hænsnfuglana.

Út af fyrir sig er ekkert að veiðistýringu en tilskipunin nú virðist hins vegar aðallega taka mið af því að létta löggæslumönnum störfin frekar en verið sé að hlífa stofninum. Skiptar skoðanir eru reyndar meðal veiðimanna og fleiri um mat vísindamanna á stofnstærðinni en sjálfsagt er að láta náttúruna njóta vafans. Tilmæli um 38 þúsund fugla hámarksveiði eru hins vegar marklaus. Hver telur? Á meðan flestir veiðimenn láta sér nægja að veiða í jólamatinn fyrir sjálfa sig þá leika magnveiðimennirnir lausum hala. Sumir eru m.a.s. í hópi landeigenda sem hvað hæst hafa kallað eftir rjúpnaveiðibanni á sauðsvartan almúgann mörg undanfarin ár.


mbl.is Áfram sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Útlendingurinn" á kaffistofunni

Hvernig færum við að ef útlendingar aðstoðuðu okkur ekki við að blása í þenslublöðruna? Sennilega væri lítið loft í henni. Bara hér í Mosfellsbæ, þar sem ég bý, hefur eitt stórt íbúðahverfi sprottið upp á síðustu misserum. Byggingarframkvæmdir standa yfir í tveimur til viðbótar, Leirvogstungu og Krikahverfi, og framundan er uppbygging á nýju hverfi í Helgafellslandi.

Annars hitti ég rafvirkja í gær sem sagðist vera að vinna við raflagnir í þremur blokkum í Hafnarfirði. Hann sagðist vera í þeirri undarlegu stöðu að hann væri eini ,,útlendingurinn" á kaffistofunni og sá eini sem ekkert áttaði sig á umræðum vinnufélaganna um daginn og veginn.


mbl.is Tæplega 15 þúsund útlendingar fengu úthlutað kennitölu á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnsleysi og aftur vatnsleysi

Copy of IMG_1615 Hef farið í þrjár veiðferðir síðustu vikuna. Átti veiðidaga í Tungufljóti í Skaftártungum. Þar var vatnslaust og sjálfhætt að veiða. Þokkalegasta vatn var hins vegar Norðlingafljóti í Borgarfirði og þar fékkst einn lax og tveir urriðar. Í Stóru-Laxá (svæði III) var vatnið hins vegar svo lítið að vatnslaust varð í veiðihúsinu. Er þá hægt að biðja um afla í ánni sjálfri?

Nærtækast væri að kenna Veðurstofunni og þeim hatrömmu innanhússdeilum, sem þar tröllríða starfseminni að sögn veðurfræðinga sem tjáð hafa sig um málið, enda var stofan búin að spá úrhelli í Tungufljóti og roki og rigningu í Stóru-Laxá. Hvorugt gekk eftir. En svona er veiðin. Maður tekur þessu eins og hverju öðru hundsbiti og ekki þakkar maður eineltinu á Veðurstofu Íslands fyrir það þegar kjörskilyrði eru til veiða, mígandi rigning samkvæmt spám og fiskur á ferð um allt.


Sæsteinsugurnar?

Viðbrögð manna á blogginu við frétt Mbl.is um að einhver maður í útlöndum hafi eytt peningum sínum í vínföng á einhverjum stað, minna mig á það að á föstudaginn er ég að fara til veiða í Tungufljóti í V-Skaftafellssýslu. Þar, sem og víðar í ám í nágrenninu, varð fyrst í fyrra vart við fisktegundina sæsteinsugu. Sú er eins og þeir, sem vakta Mbl.is til þess að láta ljós sitt skína, ,,sníkill". Sæsteinsugan þrífst á sjóbirtingi á meðan hinir líma sig á fréttatré Morgunblaðsins. Munurinn er hins vegar sá að sæsteinsugan er skaðræðisgripur, sem grípur fiskinn með sogörmum og lifir á honum sníkjulífi með að sjúga úr honum blóðið, á meðan þeir sem lifa í skugga og á greinum Mbl.is eru bara að sníkja sér saklaust far á athyglishringekjunni. Með þessum pósti hef ég gerst sekur um að sníkja mér far á sömu hringekju en meira um sugurnar síðar.
mbl.is Keypti drykki á barnum fyrir 13 milljónir kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litbrigði gróðurs

IMG_1214-bÞað hefur verið gaman að fylgjast með gróðrinum hér við sumarbústaðinn í sumar. Ég er svo lánsamur/ólánsamur að vera búinn að planta í alla lóðina og stend í því að klippa öll tré og runna til að skapa ,,lebensraum" fyrir plönturnar mínar. Næst er að grisja. Ég geri mér grein fyrir því að þetta hljómar eins og versti ,,rasismi" en ég kæri mig kollóttan. Þeir, sem eru með kynþáttahatur og -hyggju á heilanum ættu að faðma næsta tré og þá er aldrei að vita nema að þeir gætu fundið nauðsynlega (jarð)tengingu.

Þrátt fyrir þurrkana í sumar þá hafa þeir, sem plantað hafa trjám í sumarbústaðalönd eða annars staðar fyrir tveimur eða fleiri árum, ekkert að óttast. Trén spjara sig og setja ræturnar niður í leit að vætu. Hér í Kjósinni kom góð skúr þann 1. júlí en síðan liðu nákvæmlega þrjár vikur þar til að himnarnir opnuðust á nýjan leik. Hvað varðar litbrigðin þá byrjar þetta allt á hinum himneska gula lit geislasópsins. Síðan taka sírenurnar við með sínum fallegum bleiku blómklösum. Nú er það stig að ganga yfir. Næstur á ferðinni verður skógartoppurinn minn. Gulu blómklasarnir eru að verða þroskaðir. Geitaskeggið hefur verið í blóma en það er mikill munur á Kamsjaktakvæminu, sem ég ræktaði upp af fræjum, og plöntunum sem ég keypti í einhverri gróðarstöð. Kamsjatka blómstrar  ekki næstum eins lengi og blómin láta fljótlega á sjá. Þá má ekki gleyma birkikvistinum og öllum toppunum mínum. Vandinn er sá að þegar maður þarf að klippa þessar plöntur, sérstaklega birkikvistinn, þá klippir maður í leið af blómgun næsta árs. Úlfareynirinn og fleiri reynitré eru svo á góðri siglingu, sömuleiðis dögglingskvisturinn og í september mun runnamuran gleðja augað.

Þannig lítur gróðursinfónían hér í Kjósinni út þessa dagana.


Það er byrjað að rigna!

Loksins, loksins...

Ef ég man rétt þá voru þetta upphafsorð á frægum ritdómi fyrir nokkrum áratugum. Nú læt ég mér nægja að nota þessi fleygu orð um rigninguna sem loksins hefur gert vart við sig hér í Kjósinni. Í gær hellirigndi í klukkutíma og í dag hafa skúrirnar verið nokkuð kröftugar.

Hún er undarleg þessi úrkoma. Á föstudag var spáð skúrum en þær náðu ekki einu sinni í dropatali sínu að rykbinda vegi sveitarinnar. Ástandið var ekki betra á laugardeginum en í gær kom hellidemba að erlendri fyrirmynd, lóðrétt og kröftug. Í dag hafa skúrnirnar ekki verið jafn kröftugar en þó fleiri. Lækir eru farnir að renna í Sandsfjallinu og loksins þarf ég að fara eftir sláttuvélinni í bæinn. Hef passað mig á að bera ekki áburð á grasflatirnar (mosann) en þeim mun meira á trén. Nú verður ,,gróðursprenging". Sem áhugamaður um veiði fagna ég úrkomunni. Ár landsins hafa verið niðri í grjóti og ég hef séð fleiri steina standa upp úr Meðalfellsvatni en ég minnist að hafa séð áður.

Það er hins vegar undarlegur andskoti að ef maður þráir eitthvað heitt, s.s. rigninguna, þá gefst maður fljótlega upp á grámyglunni. Þetta er auðvitað vanþakklæti en ef það heldur áfram að rigna þá þarf ég að verða mér úti um fleiri handklæði til að þurrka bleytuna af honum Funa mínum. Hann er tveggja handklæða hundur á sæmilegum rigningardegi. Ætli við förum ekki að svipast um eftir ánamöðkum. Mér skilst að þeir hafi selst á allt að 300 kr/stk. á dögunum. Það er margfalt kg/verð miðað við nautalundir, jafnvel þótt þær séu íslenskar.

Vona að síðasta ,,komment" verði ekki tilefni til umræðu um rasisma.


Borgaraleg handtaka ,,undir áhrifum" innan borgarmarkanna

Það hefur ýmislegt verið skrafað um veiðiþjófnað í ám á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni að undanförnu. Af einhverjum ástæðum hafa sumir kosið að hengja bakara fyrir smið eða freista þess að drepa sendiboðann af því tilefni að stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur unir ekki þeim lögbrotum sem verið er að fremja í ám sem eru innan vébanda félagsins. Einn af þeim er framkvæmdastjóri Alþjóðahúss og nú hefur hann bitið höfuðið af skömminni.

Nú eru það borgaralegar handtökur sem eru aðalmálið. Hættan, ef ég skil framkvæmdastjórann rétt, er sú að misdrukknir stangaveiðimenn gætu misboðið brotamönnunum. Þar, sem að flestir veiðiþjófnaðanna sem vitað er um, eru í Elliðaánum og í næstu nágrannaám s.s. Leirvogsá og Laxá í Kjós og Bugðu þá leyfi ég mér að efast um að dylgjur framkvæmdastjórans eigi við rök að styðjast. Hafi hann eitthvað fyrir sér í þessum efnum þá ætti hann auðvitað að snúa sér til lögregluyfirvalda. Það var einmitt hjá þeim sem SVFR fékk upplýsingar um það hvernig best væri fyrir veiðimenn og þolendur veiðiþjófanna að bregðast við. Veiðimenn, sem brotið var á í Leirvogsá á dögunum, brugðust nákvæmlega rétt við. Þeir hindruðu för veiðiþjófanna og biðu þar til að lögreglan kom á staðinn.


mbl.is Framkvæmdastjóri Alþjóðahúss svarar bréfi formanns SVFR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverju á að biðjast afsökunar?

Ummæli framkvæmdastjóra Alþjóðahúss vegna veiðibrota í nokkrum veiðiám landsins eru vægast sagt undarleg. Hið sama má segja um innlegg þeirra tveggja sem tjáð hafa sig um fréttina hér á blogginu. Málið snýst um veiðiþjófnað. Þjóðerni veiðiþrjótanna hefur verið nefnt og hvað með það? Í dag voru tveir staðnir að verki á svæði III í Stóru-Laxá í Hreppum. Þeir voru frá Tékklandi. Á að þegja yfir því?

Veiðiþjófnaður manna af erlendu bergi brotnu er orðið vandamál í íslenskum laxveiðiám. Um þverbak hefur keyrt í sumar. Ég reikna ekki með því að framkvæmdastjóri Alþjóðahúss vilji að mál séu látin niður falla vegna þess að útlendingar eigi í hlut. Íslenskir ríkisborgarar, bæði þeir sem fæddir eru í landinu og þeir sem eru aðfluttir, átta sig á íslenskum reglum. Hið sama verða aðkomumenn að gera. Sumir vita ekki betur en aðrir veifa Veiðikortinu og skáka í því skjólinu að út á það megi veiða á öllum veiðisvæðum landsins. Það er fjarri lagi því þótt Veiðikortið sé öflugt þá eru ekki ,,nema" um 30 vatnasvæði innan vébanda þess ágæta korts.

Staðreynd málsins er þessi. Veiðiþjófar hafa verið gripnir við iðju sína í ám eins og Elliðaánum, Leirvogsá, Laxá í Kjós og Bugðu og Stóru-Laxá í Hreppum. Þjóðernis viðkomandi manna hefur verið nefnt á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur og stjórn félagsins hefur tekið þá ákvörðun að öll veiðibrot verði kærð. Það hefur áður verið gert í tilviki íslenskra veiðimanna. Í ljósi þess að íslenskir ríkisborgarar, hér fæddir sem aðfluttir, eru sennilega meira en 95% þeirra sem stunda veiðar á annað borð þá væri það sennilega að bera í bakkafullan lækinn að taka fram í hverju tilviki, ef Íslendingar eru staðnir að veiðiþjófnaði, að um Íslendinga væri að ræða. Ég sit í stjórn SVFR og veit ekki til þess að íslenskir ríkisborgarar hafi verið teknir fyrir veiðiþjófnað í sumar. Framvegis er sjálfsagt að þess verði getið sérstaklega í fréttaflutningi á vef SVFR ef Íslendingar verði staðnir að slíkum glæpum, verði það til að kæta geð manna.

Eiríkur St. Eiríksson


mbl.is Umræðan um veiðiþjófnað öfgafull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Júlli Páls á Bíldudals grænum...

IMG_1423-b Var á Bíldudal um liðna helgi. Þar fór fram fjölskylduhátíðin Bíldudals grænar... Það var gaman að koma til Bíldudals á ný enda er móðir mín ættuð úr Arnarfirði og svo skemmtilega vildi til að hátíðarölið var kennt við hann afa minn, Júlíus Pálsson sem bjó síðast í Bót á Bíldudal.

Of langt mál yrði að telja upp alla viðburði hátíðarinnar en Bílddælingar og aðrir Arnfirðingar sýndu svo ekki verður um villst að maður er manns gaman. Öll skemmtiatriðin voru í höndum heimamanna og gróskan í tónlistarlífinu er ótrúlega mikil. Ég mæti á Bíldudals grænar... næst þegar hátíðin verður haldin árið 2009.


Lerkið sýnir lit

Vorið er komið þrátt fyrir leiðinlegt og rysjótt tíðarfar hér á suðvesturhorni landsins. Farfuglarnir eru óðum að tínast til landsins og í dag sá ég að græni liturinn er að koma á lerkið hér heima sem og í Hamrahlíðinni við Vesturlandsveginn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband